Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Engin merki um að gosinu sé að ljúka

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir að þrátt fyrir breytingar á gosvirkni séu engin merki um að gosinu sé að ljúka í Geildingadölum.

Lokað er við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall í dag vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæg norðanáttin veldur því að hætta er á gas- og reykmengun á gönguleiðinni. Þá hafa gróðureldar kviknað þegar gjóska þeytist langt frá gígunum.

Rætt var við Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir að fólk sem hafði verið við eldstöðvarnar hafi fengið yfir sig ösku og fundið hraunmola í hárinu eftir að heim var komið. 

„Líklegasta skýringin á þessu er breytingar rétt undir gígunum þar sem kvikan safnast saman. Það svæði er að taka breytingum. Eftir því sem það svæði stækkar eða minnkar þá getur gasið náð að safnast í bólur og valda kvikustrókavirkni.“

Framleiðslan á hrauninu sé jöfn og engin merki séu um að gosinu fari að ljúka. Kvikan komi upp af 15-20 kílómetra dýpi og renni upp í beinni rás upp en á um 100 metra dýpi hafi nú orðið til kvikusöfnunarstaður í einhvers konar hólfi.

Enn sé innistæða sé fyrir stórum skjálfta upp á 6,5 ofan við Kleifarvatn.

„En þetta er enginn hamfaraskjálfti. Í svoleiðis skjálfta hreyfast húsgögn úr stað og ef eitthvað er illa fest getur það dottið niður en við erum ekki að tala um neinar hamfarir. En ef fólk hefur ekki gengið nógu vel frá innanstokksmunum getur verið hætta á að það meiði sig.“
 

 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV