Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eina slökkviskjólan ónýt og eldhætta enn gríðarleg

10.05.2021 - 17:38
Mynd með færslu
Mynd tekin á æfingu Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Eina slökkviskjólan sem Landhelgisgæslan hefur til umráða og hefur nýst vel í baráttu við gróðurelda, er ónýt og slökkvigeta úr lofti því engin. Almannavarnir hafa miklar áhyggjur af stöðunni, en vonast er til að hægt verði að fá aðra skjólu lánaða frá Svíþjóð.

Slökkviskjóla var fengin til landsins í kjölfar Mýraeldanna vorið 2006. Hún er í raun sérhönnuð fata sem rúmar um tvö þúsund lítra af vatni og er hengd neðan í þyrlu Gæslunnar, sem getur síðan gusað því yfir logandi svæði eða mannvirki.

Skjólan kom síðast að góðum notum þegar umfangsmiklir gróðureldar kviknuðu í Heiðmörk í síðustu viku og fór til að mynda 17 ferðir úr nálægum vötnum og losaði yfir eldana, áður en hún bilaði og er í raun ónýt. Gæslan hefur kallað eftir því síðustu ár að búnaðurinn sé endurnýjaður.

„Okkur skilst frá Landhelgisgæslunni að hún muni ekki fljúga framar. Það þýðir að slökkvigeta okkar úr lofti er verulega takmörkuð og nánast engin, má segja. Þetta er eitthvað sem við höfum áhyggjur af,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Óvissustig er í gildi á suðvesturhorni landsins vegna þurrka og Rögnvaldur tekur undir að það sé því sérstaklega bagalegt að geta ekki varist eldum úr lofti.

„Já, það er það. Eins og við þekkjum getur verið erfitt að komast að gróðureldum. Þetta er oft í landi sem er gróið og ekki endilega vegir eða slóðar sem hægt er að ferðast um til að komast nálægt. Þá er bara hægt að sækja að á fótum og það gerir allt slökkvistarf miklu flóknara og erfiðara. Það er tímalaust til bóta að geta sótt vatn úr lofti því það er oft jafnvel eina leiðin sem virkar.“

Mynd með færslu
Mynd úr Heiðmörk 5. maí. Mynd: Aðsend mynd
Gróðureldar í Heiðmörk í síðustu viku.

Reyna að fá lánaða skjólu í Svíþjóð 

Nú er verið að skoða hvað hægt er að gera í stöðunni, en þangað til er slökkvigeta úr lofti hreinlega ekki til staðar.

„Já, eins og staðan er núna þá vitum við ekki hvenær það breytist. Það skýrist vonandi í kvöld eða morgun hvernig staðan er á því. Við vitum að svona skjóla er til í Svíþjóð, til dæmis, og höfum fengið vilyrði fyrir því að fá hana leigða. Það er verið að skoða möguleikana í stöðunni gagnvart því,“ segir Rögnvaldur.

Það sé hins vegar mikilvægt að tryggja það til frambúðar að skjóla sé til taks hér á landi.

„Fyrsta skrefið er að fá eitthvað lánað og koma til landsins sem fyrst. En annars held ég að við þurfum að eiga svona hérna heima. Við sjáum það að þessar aðstæður skapast oftar hérna á Íslandi, með hlýnandi tíðarfari og meiri gróðri. Þetta verður alltaf stærri áskorun fyrir okkur, gróðureldar,“ segir Rögnvaldur.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Ekki viðeigandi að vera með opinn eld

Síðast í dag var slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallað út vegna gróðurelda, það var í Guðmundarlundi í efri byggðum Kópavogs. Ekki er spáð að tíðin breytist mikið á næstunni og því mikil hætta til staðar.

„Það þarf ekki mikið til. Það þarf bara örlítinn neista og það er eitthvað sem við höfum verulegar áhyggjur af. Þetta er búinn að vera nokkur langur tími í þurrkum og eins og staðan er núna er ekki fyrr en kannski um helgina sem það gæti breyst.“

Almannavarnir biðla því til almennings að fara sérstaklega gætilega og sé ekki með opinn eld á víðavangi.

„Það er bara ekki viðeigandi. Hvorki einnota grill eða sígarettur eða slípirokka eða neitt sem getur skapað neista. Eins í sumarhúsabyggðum, að vera ekki að kveikja upp í kamínunni eða grillinu. Helst láta þetta allt saman bíða. Og líka það sem ætti ekki að þurfa að segja, en þarf samt, er að flugeldar eru stranglega bannaðir á þessum árstíma,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.