Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Býst við að ný bylgja verði kröftugri en sú síðasta

85 prósent þeirra sem leita til Heimilisfriðar hafa sjálf orðið fyrir ofbeldi sem börn eða orðið vitni að ofbeldi sem börn. „Við erum oft að eiga við kynslóðasögur.“ Þetta sagði Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði, í Kastljósi í kvöld en Heimilisfriður er úrræði fyrir fólk sem beitir heimilisofbeldi. Hann fagnar aukinni umræðu um kynferðisofbeldi og segir hana geta haft fælingarmátt með því að hjálpa fólki að átta sig á því hvað ofbeldi er. 

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, skipuleggjandi Druslugöngunnar, var einnig gestur í Kastljósi. Hún hefur tekið virkan þátt í nýrri bylgju #metoo sem hófst á Twitter í síðustu viku. Hún segist búast við að þessi bylgja verði sterkari og lengri en sú síðasta, fólk sé orðið þreytt á því að endurtaka sig og krefjist breytinga. Hún segir að baráttan taki mjög á en að sú tilfinning vakni að þeim sem geti beri næstum skylda til að nýta tækifærið og stíga fram. „En maður þarf líka að vita hvenær maður þarf að kúpla sig út,“ segir hún.