Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Böndum komið á gróðureld í Guðmundarlundi

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu réð niðurlögum gróðurelds í Guðmundarlundi í Kópavogi nú á öðrum tímanum. Vel gekk að koma tækjum og tólum á staðinn til að hefta útbreiðslu eldsins að sögn slökkviliðsstjóra.

Gróðureldar sem kviknuðu í Heiðmörk í síðustu viku urðu afar umfangsmiklir og með stærstu verkefnum sem tengjast kjarr- eða gróðureldum sem slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur fengist við. 

Í kjölfarið lýstu almannavarnir yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum. Lítið hefur rignt á suðvestanverðu landinu undanfarið og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór meðal annars í fimm útköll vegna sinubruna í gær.

Uppfært kl. 13:19. Jón Viðar Mattíasson slökkviliðsstjóri segir í samtali við fréttastofu að böndum hafi verið komið á gróðureldinn í Guðmundarlundi. Vel hafi gengið að koma tækjum og mannskap á staðinn og hefta útbreiðslu eldsins. Bruninn sé við Guðmundarlund en hús og byggingar hafi ekki verið í hættu. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu stórt svæði brann né út frá hverju kviknaði í. 

Guðmundur Karl Halldórsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að vel hafi gengið að koma tækjum og mannskap á staðinn og hefta útbreiðslu eldsins. 

„Það logaði mjög mikið þegar við komum hérna, vindáttin var ekki hagstæð en vegur sem lá hérna í gegnum svæðið hjálpaði okkur mikið til þess að hefta þetta þannig að þetta fór ekki lengra,“

Hvað heldurðu að þetta sé stórt svæði?

Þetta er nokkuð stórt, ætli þetta sé ekki kannski einn og hálfur hektari eða tveir.“ 

Er eitthvað vitað um eldsupptök?

Nei það er í rauninni ekki hægt, það er svo rosalega þurrt hérna núna þannig að það þarf ekki mikið til, við fundum að vísu grill hérna á staðnum en við vitum ekkert hvort það er út frá því sem kviknaði í,“ segir Guðmundur. 
 

Fréttin hefur verið uppfærð.