Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áhyggjur vaxa vegna indverska veiruafbrigðisins

10.05.2021 - 17:36
epa09189118 A suspected COVID-19 patient receives oxygen supply at a Sikh shrine, or gurdwara, where oxygen is made available for free by various Sikh religious organizations in the outskirts of Delhi, India, 10 May 2021. Calls for a nationwide lockdown have been growing as the number of new COVID-19 infections and related deaths stood close to record highs on 10 May.  EPA-EFE/IDREES MOHAMMED
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónuveiruafbrigðið sem hefur farið eins og eldur í sinu um Indland undanfarna mánuði virðist vera mun meira smitandi en áður var talið. Þá kunna bóluefni sem notuð eru gegn veirunni að hafa minni vörn gegn indverska afbrigðinu en öðrum.

Þetta kom fram á fundi sem Maria Van Kerkhove, yfirmaður hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni átti með fréttamönnum í Sviss í dag. Hún sagði að frekari upplýsinga væri að vænta á morgun þegar sérfræðingahópur stofnunarinnar gerir grein fyrir rannsóknum á indverska afbrigðinu. Ljóst væri þó af þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir að þjóðir heims þyrftu að vera á varðbergi.

Þetta afbrigði sem kallast B.1.617 kom fyrst í ljós á Indlandi í október í fyrra. Það hefur valdið Indverjum þungum búsifjum. Hundruð þúsunda hafa smitast á hverjum sólarhring að undanförnu og þúsundir dáið. Smit í dag voru hátt í 370 þúsund og dauðsföllin um 3.700, samkvæmt opinberum tölum. Almennt er talið að ástandið sé mun verra.

Sjúkrahús eru yfirfull í landinu, grafreitir fyllast hver af öðrum og líkbrennslur anna ekki þörf. Þá greindu indverskir læknar frá því í dag að núverandi og fyrrverandi sjúklingar væru farnir að veikjast af sjaldgæfum sveppasjúkdómi sem þeir kalla svarta sveppinn. Hann leggst einkum á fólk með skaddað ónæmiskerfi. Þrjú hundruð tilfelli hafa þegar verið skráð í borgum í ríkinu Gujarat.