Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tíu ferðamenn í haldi á Keflavíkurflugvelli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tíu ferðamenn frá meginlandi Spánar eru í haldi á Keflavíkurflugvelli. Þeir uppfylla ekki skilyrði reglugerðar dómsmálaráðherra sem bannar ónauðsynlegar ferðir frá hááhættusvæðum og tók gildi 27. apríl. Vísir.is greindi fyrst frá.

Samkvæmt reglugerðinni er útlendingum sem koma frá svæðum þar sem nýgengi smita er yfir 700 á hverja hundrað þúsund íbúa óheimilt að koma til landsins, nema í brýnum erindagjörðum, og Spánn bættist á listann á föstudag.

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir að fólkið verði sent til baka eins fljótt og hægt er en bíði nú átekta í sóttkví á Keflavíkurflugvelli. Það hafi ekki tekið því vel að vera stöðvað á flugvellinum. 

„Það eru alls konar undanþágur en þetta fólk fellur ekki undir neitt af því. Það er ekki bólusett og það er ekki með búsetu hér eða fjölskyldutengsl. Þetta eru bara ferðamenn, túristar,“ segir hann. 

Heldurðu að þetta fólk hafi vitað af reglugerðinni?

„Annað hvort það eða þá ætlaði það bara að láta á þetta reyna. Það er svosem trúlegt að það hafi ekki vitað það. En þegar fólk forskráir sig á covid.is áður en það kemur til landsins þá kemur þetta upp. Þau ættu ekki að vera grunlaus en þetta er tæpt í tíma, Spánn bættist á listann á föstudaginn og það þurfti að uppfæra tölvukerfið þannig að það getur verið að þetta hafi farið fram hjá fólki,“ segir hann.

Hvað verður um þetta fólk? Þau hljóta að vera í sóttkví? Hvenær fara þau til baka?

„Þau eru bara í aðstöðu sem við erum með á vellinum. Við höfum ekki verið að sekta, það er nóg að stoppa ferðalagið. Stoðdeild ríkislögreglustjóra er að vinna í þessu.“

Hvernig hefur fólk tekið þessu?

„Illa, það er ekki hresst með þetta?“