Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Talibanar boða þriggja daga vopnahlé

09.05.2021 - 23:03
epa09186850 Afghan girls attend Tajrobawai Girls High School in Herat, Afghanistan, 09 May 2021. The death toll from a bomb attack near a secondary school for girls in Kabul climbed to 50, Afghanistan's interior ministry said 09 May. Violence has surged in recent weeks in Afghanistan, especially since May 1, the date when all US and NATO forces were supposed to have been out of Afghanistan under the agreement the Taliban signed last year with the then-president of the United States, Donald Trump.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talibanar lýstu í kvöld yfir þriggja daga vopnahléi í Afganistan á meðan Eid al-Fitr hátíðin fer fram. AFP fréttastofan greinir frá. Í yfirlýsingu samtakanna segir að allar árásir séu bannaðar næstu þrjá daga, en ef óvinasveitir veitast að þeim má verjast af hörku.

Talibönum var kennt um mannskæða sprengjuárás við stúlknaskóla í Kabúl í gær, þar sem yfir 50 létu lífið. Flest fórnarlambanna voru ungir nemendur við skólann. Talibanar sverja þó árásina af sér.

Eid al-Fitr markar lok föstumánaðar múslima, Ramadan. Hátíðin hefst á nýju tungli. Talibanar lýstu yfir sams konar vopnahléum í fyrra. Stjórnvöld í Afganistan hafa yfirleitt lýst yfir sams konar vopnahléi á sama tíma. Talsmaður Abdullah Abdullah, aðalsamningamanns Afganistans í friðarviðræðum við Talibana, segir stjórnvöld ánægð með yfirlýsinguna, og von sé á svipaðri yfirlýsingu frá stjórnvöldum á næstunni.

Margir óttuðust að Talibanar gerðu sig breiða við brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan. Allir bandarískir hermenn áttu að fara frá landinu 1. maí síðastliðinn samkvæmt samkomulagi við Talibana. Bandaríkjastjórn ákvað hins vegar að fresta því til 11. september, við litla ánægju Talibana. Hibatullah Akhundzada, leiðtogi Talibana, ítrekaði í yfirlýsingu að öll seinkun á brotthvarfi Bandaríkjahers væri samningsbrot. Brjóti þeir aftur gegn samningum verði heimsbyggðin að átta sig á því að afleiðingarnar verða sök Bandaríkjanna.