Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Norskar reglur hertar vegna Samherja

09.05.2021 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur sent norsku fiskistofunni fyrirmæli um hvernig taka eigi á erlendu eignarhaldi í norskum sjávarútvegi. Hann segir að tilmælin séu tilkomin vegna þess að Samherji hefur keypt sig inn í norskt útgerðarfélag. Samkvæmt norskum lögum mega útlendingar ekki eiga meira en 40 prósent í norskum útgerðum. Ráðherrann segir ekki ástæðu til að taka sérstaklega vel á móti fyrirtækjum sem safna undir sig veiðiheimildum í mörgum löndum.

Ráðherrann hefur gefið fiskistofu fyrirmæli um að taka strangar á málum sem snúa að breyttu eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja þegar útlendingar eiga í hlut. Fiskistofa á líka að meta hvort erlend fyrirtæki sem hyggjast fjárfesta í norskum sjávarútvegi hafi brotið reglur í norskri landhelgi með útgerð undir öðrum fána. Einnig stendur til að gefa út reglugerð þess efnis að ætíð þurfi að fá samþykki stjórnvalda fyrir beinu eða óbeinu eignarhaldi útlendinga á norskum sjávarútvegsfyrirtækjum, ekki verði nóg að tilkynna um það.

Ráðherrann bendir á Samherja

„Ég dreg ekki dul á að þessi fyrirmæli eru til komin vegna íslenska fyrirtækisins Samherja sem hefur keypt sig inn í norskt útgerðarfélag,“ er haft eftir Ingebrigtsen á vef norskra stjórnvalda. „Samherji er nú þegar með starfsemi í fleiri Evrópuútlöndum og hefur stundað fiskveiðar í landhelgi okkar undir ýmsum fáum. Slík alþjóðleg samþjöppun eignarhalds skapar sérstakar áskoranir.“

Sjávarútvegsráðherrann vill að reglurnar geti jafnvel orðið afturvirkar.

Fréttastofa hafði samband við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, til að leita viðbragða við hans. Hann sagðist ekki ræða við fréttastofu RÚV.

Varar við samþjöppun

Ingebrigtsen segir að hann sé ekki andsnúinn erlendri fjárfestingu í norskum sjávarútvegi og hún geti haft jákvæð áhrif í för með sér. Það verði þó að tryggja að útgerðin gagnist fólki í strandbyggðum. „Ég sé ekki ástæðu til að taka sérstaklega vel á móti fyrirtækjum sem starfa þvert á landamæri til að safna sem mestum kvóta á sínar hendur.“

Fyrirmæli sjávarútvegsráðuneytisins norska til fiskistofunnar hefjast á tilvísun til þess að íslenskt fyrirtæki hafi keypt minnihluta í norsku útgerðarfélagi í gegnum þýskt fyrirtæki. Þar er vísað til Samherja og dótturfélags þess. Þetta hafi orðið ráðuneytinu tilefni til þess meðal annars að kanna samþjöppun eignarhalds og hvort að brot undir öðrum fána en norskum hafi áhrif á eignarhald í norskri útgerð. Síðar í fyrirmælunum segir að ástæður geti verið til þess að minna þurfi til að hafna erlendu eignarhaldi í norskum sjávarútvegi en innlendu eignarhaldi.