Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landsréttur strangari í kynferðisbrotum en Hæstiréttur

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Landsréttur virðist gera strangari kröfur um sannanir í kynferðisbrotamálum en hæstiréttur. Þetta er mat lögmanna. Landsréttur mildar fjörutíu prósent kynferðisbrotadóma, mun oftar en í öðrum brotaflokkum. Lögmaður segir viðbúið að fólk veigri sér meira en áður við því að kæra kynferðisbrot.

Landsréttur tók til starfa í janúar fyrir þremur árum. Áður var Hæstiréttur eini áfrýjunardómstóll landsins. Andrés Ingi Jónsson, alþingismaður, hefur kallað eftir upplýsingum um dóma Landsréttar. En mikil umræða hefur verið í tengslum við #metoo-bylgjuna sem nú er, um það hversu fá kynferðisbrotamál leiða til sakfellingar. 

Landsréttur hefur mildað dóma eða breytt sekt í sýknu í tuttugu og fimm prósentum ofbeldisbrota og fíkniefnabrota. En þegar kemur að kynferðisbrotum eru tilvikin fleiri eða í fjörutíu tveimur prósentum allra dóma fyrir kynferðisbrot.

„Mér finnst þetta ekki góð tíðindi. Þetta staðfestir það sem fólk í bransanum hafði á tilfinningunni,“ segir Andrés Ingi.

Óbein sönnunargögn síður tekin gild í Landsrétti en Hæstarétti

„Á milli okkar kolleganna sem erum að starfa í þessu er það tilfinningin að það sé verið að gera strangari sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum heldur er Hæstiréttur var búinn að gefa línuna um, varðandi t.d.  óbein sönnunargögn. Eins og skýrslur sálfræðinga, framburður annarra vitna sem sagt hefur verið frá,“ segir Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður og réttargæslumaður brotaþola.

„Þarna finnst mér líka skipta máli að þetta eru mál sem ákæruvaldið hefur metið sem líkleg til sakfellingar, gefið út ákæru, þetta eru  mál sem hafa farið fyrir héraðsdóm og þar sem dómstólinn hefur sakfellt og gefið út ákveðna refsingu. Þetta er vísbending um að það sé ekki fullkomið samræmi í því hvernig ákæruvald, hérað og Landsréttur líta þessi sömu mál,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir alþingismaður (C) og fv. saksóknari.

Landsréttur hafi bakkað aftur um áratugi

„Það er eins og Landsréttur sé að bakka aftur í þá stöðu sem var fyrir árum og áratugum þar sem, innan gæsalappa, rétt hegðum vitnis skipti miklu máli sem gengur náttúrulega ekki þar sem hegðun fólks er alls konar,“ segir Andrés Ingi.

„Það kemur svolítið á óvart að það hafi ekki leitað inn til dómstólanna aukin þekking á afleiðingum kynferðisofbeldis af því að það er búið að rannsaka það mjög vel,“ segir Kolbrún.

Þung skref að kæra

Þeir sem verða fyrir ofbeldi veigra sér oft við því að kæra mál til lögreglu. Hvaða afleiðingar hefur það að heyra að kynferðisbrotadómar eru mildaðir í rúmlega fjörutíu prósentum tilvika í Landsrétti?

„Fyrir fólk sem vantreystir kerfinu þá er þetta ekki til þess að byggja upp traust,“ segir Andrés Ingi.

„Það getur verið letjandi fyrir þær að stíga fram. Af því að þessi spor að leggja fram kæru eru ofboðslega þung. Þú ert endalaust að endurtaka það sem fyrir þig kom. Það leggst mjög þungt á brotaþola. Og ég er hrædd um það það geti verið letjandi að fá svona upplýsingar,“ segir Kolbrún.

„Það er ekki bara slæmt fyrir þolendur þessara brota heldur samfélagið allt,“ segir Þorbjörg.