Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kærir sýknudóm Landsréttar til Mannréttindadómstóls

epa06677073 An exterior view of the the European Court of Human Rights in Strasbourg, France, 18 April 2018 .  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA
Fatlaður maður sem fór í mál við föður sinn vegna kynferðisbrota þegar hann var barn, undirbýr nú kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu. Faðinn var dæmdur en Landsréttur sneri dómnum og sýknaði hann. Lögmaður mannsins segir að Landsréttur hafi ekki litið til fötlunar hans þegar dómstóllinn mat framburð hans. 

Leiðrétting 11.maí 2021 kl. 10:36. Í fyrri útgáfu fréttarinnar var stjúpfaðir mannsins sagður vera sá sem málið beindist gegn en hið rétta er að það var faðir hans. Fréttin hefur verið leiðrétt.  Beðist er velvirðingar á mistökunum. 

Fyrir fjórum árum kærði maðurinn, sem er með einhverfu, föður sinn fyrir kynferðisbrot gegn sér á sjö ára tímabili, frá fjögurra ára aldri til ellefu ára. Héraðsdómur dæmdi föðurinn í sjö ára fangelsi. Landsréttur sneri dómnum og sýknaði föðurinn.

Þorbjörg Inga Jónsdóttir, lögmaður mannsins, undirbýr nú kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er einnig í undirbúingi einkamál til kröfu skaðabóta.

„Það er ljóst að umbjóðandinn minn hefur orðið fyrir verulegu tjóni út af þeim brotum sem hann hefur lýst að hann hafi orðið fyrir af hálfu þessa aðila,“ segir Þorbjörg.

Landsréttur hafi fundið að skýrslutökunni í héraðsdómi. 

„Og svo er verið að benda á það í Landsréttardóminum líka að það sé að einhverju leyti mismunandi framburður hjá honum bæði frá því sem  hann gefur hjá lögreglu, fyrir héraðsdómi og fyrir Landsrétti. Og þar finnst mér í engu tekið tillit þess í dóminum til svona sérstöðu hans og fötlunar,“ segir Þorbjörg.

Þrjú ár liðu frá því maðurinn kærði þar til Landsréttur tók málið fyrir. Þá hafi aðstæður verið sérstakar vegna sóttvarna þegar skýrslutaka var fyrir Landsrétti í haust. 

„Þá olli þetta t.d. því að minn umbjóðandi þurfti að sitja miklu nær  ákærða heldur en hann gerði í héraði. Þeir voru tiltölulega nálægt hver öðrum inni í dómssal. Svo þurfti hann að vera með grímu töluvert af tímanum, reyndar ekki akkúrat meðan hann var að tala. En það að vera með grímu er t.d. mjög erfitt fyrir hann og miklu erfiðara en fyrir vel flesta. Þannig að þetta olli aukalegu álagi á hann,“ segir Þorbjörg. 

Landsréttur hefur mildað kynferðisbrotadóma eða snúið sakfellingu í sýknu í rúmlega fjörutíu prósent tilvika sem er mun meira en í öðrum brotaflokkum. Þorbjörg segir þetta hærra hlutfall en hún bjóst við.

„Það er eitthvað sem maður sá ekki fyrir að myndi gerast þegar þetta nýja áfrýjunardómstig kæmi,“ segir Þorbjörg.