Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hver er réttur fanga til ástarsambanda?

epa07701981 An interior view of an cell track with jail cells of the Berlin-Hohenschoenhausen Memorial, former Stasi prison in Berlin, Germany,  07 July 2019. The State Security Service or Staatssicherheitsdienst, of the German Democratic Republic (GDR) arrested and interrogated thousands of East Germans at the Hohenschoenhausen prison until the collapse of communist government and German reunification in 1990. Now the former Stasi prison Hohenschoenhausen is a museum and memorial.  EPA-EFE/JENS SCHLUETER  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
Mynd úr safni. Mynd: EPA
Danski þjóðarflokkurinn hefur lagt fram frumvarp sem myndi banna lífstíðardæmdum föngum að stofna til ástarsambanda við fólk utan veggja fangelsisins. Meðal þeirra sem mæla með slíkri lagasetningu er ung kona sem átti í sambandi við Peter Madsen þegar hún var sautján ára. Madsen sat þá í gæsluvarðhaldi fyrir morðið á blaðakonunni Kim Wall. Talsfólki fanga líst illa á tillöguna og segja hana geta aukið á vanlíðan þeirra.

„Mig langaði að vita hvað hann var að hugsa. Eins og aðrir í Danmörku hafði ég fylgst með málinu og ég var jafn sjokkeruð og allir hinir. En svo tók ég þetta einu skrefi lengra."

Þetta er íslensk þýðing á viðtali sem Cammilla Kürstein veitti í þættinum Go' aften LIVE á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 í lok apríl. Þessi hann sem hana langaði svo að vita hvað væri að hugsa hefur áður komið við sögu í Heimskviðum, og reyndar víðar. Hann heitir Peter Madsen, danskur uppfinningamaður sem afplánar nú lífstíðardóm fyrir að myrða sænsku blaðakonuna Kim Wall. Þessa hræðilegu sögu þekkja flest, og óþarfi að fara í smáatriðum yfir hvað þar gerðist.

„Þetta byrjaði mjög formlega en byrjaði að verða mun persónulegra um leið og flestir aðrir höfðu snúið við mér bakinu eftir að hafa frétt af því að ég var í samskiptum við Peter Madsen. Hann var svona týpa sem hlustaði vel á allt sem ég sagði. Ég gat snúið baki við öllu sem olli mér vanlíðan dags daglega. Mér leið eins og þarna væri kominn maður sem tók mér alvarlega og sá hver ég í raun var.“

Svona lýsir Cammilla upphafi sambands þeirra Peters Madsen. Hann sat í gæsluvarðhaldi, grunaður um morðið sem hann var síðar dæmdur fyrir. Hún sendi honum bréf í fangelsið, og varð að eigin sögn nokkuð hissa þegar hún fékk frá honum svar. Bréfaskriftirnar voru fyrst um sinn býsna formlegar en svo urðu bréfin innilegri. Og svo bættust við símtölin svo samband þessa fólks sem aldrei hafði hisst í raunheimum þróaðist yfir í ástarsamband. Samband þeirra varði í ein tvö ár. Cammilla fékk sér meðal annars húðflúr með nafni Peters Madsen ásamt mynd af lítilli eldflaug. Madsen var jú uppfinningamaður með geimferðir á stefnuskránni. 

„Mér leið eins og hann yrði glaður og að hann vildi að ég yrði hamingjusöm."

Þau sem voru hins vegar ekki hamingjusöm voru foreldrar Cammillu og vinir. Þau gerðu hvað þau gátu til að telja henni hughvarf, reyndu að fá sautján ára stúlkuna til að hætta að rækta samband sitt við Peter Madsen. Þau höfðu ekki erindi sem erfiði.      

Umfjöllunin er úr fréttaskýringaþættinum Heimskviðum. Þáttinn má hlusta á hér:

„Ég fylgdist með réttarhöldunum og varð eins og aðrir hneyksluð á því sem þar kom fram. En á einhvern hátt var eins og ég væri föst í vefnum hans. Ég hef aldrei áður verið týpan sem leitar í það sem er hættulegt."

Það var á endanum Peter Madsen sem sleit sambandi þeirra. Því fagnar hún í dag, en varð á sínum tíma miður sín.

„Þegar hann hætti að hafa samband við mig brotnaði ég gjörsamlega niður. Ég var föst í einhverri búbblu og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Ég var búin að slíta sambandi við alla vini mína."

Cammilla sagði sem fyrr segir sögu sína í Go' aften LIVE á TV2 nýlega. Hún segist hafa viljað segja frá til að vara aðrar stúlkur við að feta sömu braut í lífinu og hún gerði þegar hún var 17 ára. 

„Ég skil ekki hvernig nokkur gat fokkað svona í hausnum á mér. Ég hafði ágætt sjálfstraust og hélt að ég væri ekki týpan sem auðvelt væri að ráðskast með."

Peter Lundin og Peter Madsen

Cammilla Kürstein er mjög langt því frá eina manneskjan, eina konan sem stofnað hefur til sambands við mann sem situr í fangelsi í Damörku.

Peter Lundin er einn alræmdasti morðingi í síðari tíma sögu Danaveldis. Hann og faðir hans myrtu móður hans þegar Lundin var 19 ára. Þá hafði fjölskyldan búið í Bandaríkjunum í 10 ár. Hann var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Norður-Karólínu árið 1993.

Ári síðar var Lundin til viðtals í heimildarþætti á títtnefndri TV2-sjónvarpsstöð. Þar varð hann þekktur mörgum Dönum, samlandinn sem afplánaði dóm fyrir að hafa myrt móður sína. Hvort sem það var vegna þessa viðtals eða ekki æxlaðist það allavega þannig að þegar Peter Lundin sneri aftur til Danmerkur árið 1999, var sem sagt sleppt fyrr en til stóð í upphafi. Þá flutti hann beint inn til danskrar konu sem hann hafði gifst á meðan hann sat inni. Það hjónaband entist reyndar ekki lengi, honum var fleygt á dyr eftir að hafa ráðist á nýju eiginkonuna og dóttur hennar. 

Peter Lundin hóf skömmu síðar sambúð með konu að nafni Marianne Pedersen, hún átti tvo syni. Tæpu ári síðar var lýst eftir Marianne og sonum hennar tveimur. Þau hafa aldrei fundist, en Peter Lundin afplánar enn lífstíðar fangelsisdóm fyrir að hafa myrt mæðginin, bútað lík þeirra niður og losað sig við líkamsleifarnar. Ummerki og lífsýni á heimili Marianne og sona hennar þóttu sanna verknaðinn áður en Lundin játaði sjálfur. 

Peter Lundin hefur tvisvar sinnum gengið í hjónaband á meðan hann afplánar lífstíðardóminn. Önnur þeirra sótti um skilnað vegna þess að Lundin átti í ástarsambandi við enn aðra konu, þá giftur maðurinn.

Danski þjóðarflokkurinn vill banna ástarsambönd fanga

Þessi tvö mál eru gjarnan nefnd hjá dönskum þingmönnum sem vilja binda í lög bann lífstíðardæmdra fanga við að stofna til ástarsambanda frá fangelsinu. 

Það er danski þjóðarflokkurinn, Dansk Folkeparti, sem er í annað sinn forsprakkinn að frumvarpi með þessa lagabreytingu í huga. 
Formaður flokksins, Kristian Thulesen Dahl, sagði að þessu tilefni á dögunum að það væri sameignleg ábyrgð samfélagsins að koma í veg fyrir að ungar konur stofni til ástarsambanda við lífstíðarfanga á borð við Peter Madsen já og nafna hans Lundin. Hans skoðun er að hafi fólk framið svo svívirðilega glæpi og sé dæmt til lífstíðarfangavistar feli það í sér skert aðgengi að langsamlega flestum hlutum þess sem við hin köllum gjarnan daglegt líf. Þar með talið stefnumótum og tilhugalífi. 

Fangelsi og frelsi

Hugmyndin við fangelsun er meðal annars að taka fólk úr umferð, með því að brjóta reglur samfélagsins fyrirgera fangar rétti sínum til að geta um fjálst höfuð strokið. Fangelsun er þá hugsuð til að refsa og til að vernda hina í samfélaginu frá þeim sem gætu reynst hættulegir.

En svo er það líka betrunin. Velflest fangelsi á Norðurlöndum eru rekin með betrunarhugmyndina að leiðarljósi. Að eftir afplánun snúi fangar sem frjálsir menn út í samfélagið, og vonandi reyslunni ríkari fullvissaðir um að það sé betra að fara eftir reglum samfélagsins en að brjóta þær. 

Fangar eru sviptir frelsinu, en fyrirgera fangar einnig tækifærum sínum til ástar og vináttu meðan á afplánun stendur? 

Formaður fangavarðafélags Danmerkur, Bo Yde Sørensen, er á því að ekki sé hægt að ætlast til að fangar fyrirgeri þessum rétti sínum. Honum líst því ekki vel á frumvarp Danska þjóðarflokksins þó hann skilji hvaðan það kemur. Hann sjái til dæmis sjálfur umtalsverða annmarka á sambandi hinnar 17 ára Cammillu við Peter Madsen. 

Fæstir sem hljóta lífstíðardóma í Damörku dúsa bak við lás og slá ævina á enda. Algengast er að fólk sitji inni í 16-17 ár eftir að hafa verið dæmt í ævilangt fangelsi. Sørensen, formaður danska fangavarðafélagsins, bendir þessu tengt, á að lífstíðardæmdir fangar snúa á endanum aftur út í samfélagið. Það sé því ekki góð hugmynd að einangra þá með þessum hætti. 

Hafa áhyggjur af velferð fanga

Verði frumvarp þjóðaflokksins danska að lögum mega fangar með lífstíðardóma einungis vera í sambandi við nánustu fjölskyldu og vini, engir aðrir mega koma í heimsókn á meðan á afplánun stendur og föngunum verði ekki heimilt að gifta sig á meðan þeir sitja inni. 

Sem fyrr segir er þetta í annað sinn sem Danski þjóðarflokkurinn reynir að binda í lög slíkar reglur. Árið 2019 höfðu þau ekki erindi sem erfiði, en eygja von núna þegar Jafnaðarmannaflokkurinn, Socialdemokratiet, er í ríkisstjórn.  
Jeppe Bruus, þingmaður Jafnaðarmanna, sagði flokkinn styðja hugmyndina, en sagðist vilja sjá nánari útfærslu á því hvernig hún kæmist til framkvæmdar.  
Auðvitað sé ekki hægt að svipta lífstíðarfanga samskiptum við umheiminn, það sé hins vegar úrvinnsluatriði hvernig sé hægt að vakta eða stýra þeim samskiptum til að koma í veg fyrir að fangarnir séu að stofna til ástarsambanda. Það er að segja ef frumvarpið verður að lögum. 

Og það er alls ekki víst, síðast drógu Jafnaðarmenn stuðning sinn til baka eftir viðvaranir fagfólks. Þá, líkt og nú, varaði félag fangavarða við lögleiðingu bannsins. Þau höfðu áhyggjur af því að væri það fest í lög að fangar mættu ekki stofna til ástarsambanda myndi það auka líkur á ofbeldi, sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígum meðal fanga. 

Hybristophilia = Aðdáun á þeim sem hafa framið glæpi

Aðdráttarafl og aðdáun sumra á þeim sem afplána dóma fyrir hrottalega glæpi hefur verið rannsökuð. Það er þó ekkert eitt sem útskýrir áhuga fólks á þeim sem sitja inni. Stór hluti kvenna sem sækjast eftir sambandi við slíka menn hafa orðið fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Hvort það útskýri eitthvað er svo annað mál. 

Hybristophilia er orð sem notað er yfir hvatir fólks sem laðast kynferðislega að þeim sem hafa framið glæpi. 

Ted Bundy var tekinn af lífi árið 1989 eftir að hafa verið dæmdur fyrir að myrða og nauðga hið minnsta 30 konum víða um Bandaríkin. Fjöldi kvenna sendi Bundy ástarbréf á meðan hann sat á dauðadeildinni. Hann giftist einni þeirra. 

Í umfjöllun Vice um hybristophiliu frá árinu 2016 er sagt frá aðdáendum Erics Harris og Dylan Klebold. Mér þykir vænna um Eric og Dylan en um 90% af öðru fólki í mínu lífi, skrifaði einn aðdáandinn á samfélagsmiðla. Og hverjir eru aftur Eric og Dylan, jú það eru ungu mennirnir sem skutu þrettán skólafélaga sína til bana í Columbine-skólanum í Bandaríkjunum árið 1999. 

Anders Breivik fær árlega hundruð aðdáenda- og ástarbréfa í fangelsið til sín. Veruleiki sem hann bjó ekki við áður en hann myrti 77 manns í Útey og í Ósló árið 2011. 

Þá eru ótaldir költleiðtoginn og glæpamaðurinn Charles Manson og Austurríkismaðurinn Josef Fritzl sem níddist á dóttur sinni áratugum saman, hélt henni fanginni þar sem hún fæddi sjö börn hans. Þeir Manson og Fritzl eiga báðir aðdáendaklúbba. 

Svo það er ekki bara í Danmörku sem dæmdir glæpamenn eiga fylgi að fagna meðal takmarkaðs hóps. En þar eru sem sagt hugmyndir um að reyna að draga úr möguleikum á ástarsamböndum rétt á meðan afplánun stendur yfir. Um réttmæti þess og ágæti verður áfram tekist á um.

Hver er réttur þeirra sem afplána fangelsisdóma? Og hver er réttur kvenna, sem vilja setja sig í samband við þá menn að eigin vali, sama hvort viðkomandi er dæmdur glæpamaður eða ekki. Við þessum, eins og mörgum öðrum spurningum lífsins, er ekkert eitt rétt svar. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV