Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

FH hafði betur gegn Aftureldingu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

FH hafði betur gegn Aftureldingu

09.05.2021 - 16:31
Einum leik er lokið af fimm í úrvalsdeild karla í handbolta í dag. FH tók á móti Aftureldingu og vann með þremur mörkum 30-27.

Það var hins vegar Afturelding sem byrjaði leikinn betur og náði þriggja marka forystu 8-5 eftir um tíu mínútna leik. Þá hrukku Hafnfirðingar í gírinn og þeir voru fjórum mörkum yfir í leikhléi 17-13. 

Í síðari hálfleik náði FH mest fimm marka forystu en staðan engu að síður jöfn þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum, 27-27. En FH-ingar reyndust sterkari á lokasprettinum. Phil Döhler átti stórleik í marki Hafnarfjarðarliðsins, var með 39% markvörslu eða sautján varin skot. Birgir Már Birgisson skoraði níu mörk fyrir FH. Bergvin Þór Gíslason og Þorsteinn Leó Gunnarsson voru markahæstir hjá Aftureldingu með sex hvor. 

Með sigrinum styrkti FH stöðu sína í öðru sæti deildarinnar og er með 26 stig þegar fjórar umferðir eru eftir, fimm stigum minna en topplið Hauka sem mætir Fram á morgun. Afturelding er í sjöunda sæti.