Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eina fyrirtækið á landsbyggðinni á markaði

Mynd með færslu
Mynd: svn.is Mynd:
Hlutafjárútboð í Síldarvinnslunni hefst á morgun og hefjast almenn viðskipti með bréf í félaginu í lok mánaðar. Heildarverðmæti fyrirtækisins er um 100 milljarðar króna. Síldarvinnslan verður eina skráða fyrirtækið á markaði utan höfuðborgarsvæðisins.

Hlutafjárútboð í Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefst á mánudaginn og stendur til miðvikudags. Til stendur að selja rúmlega 26 prósenta hlut í félaginu og miðað við útboðsgengi, sem er 55 til 58 krónur á hvern hlut, fá seljendur allt að 26 milljarða króna samanlagt í sinn hlut. Þetta þýðir líka að heildarverðmæti fyrirtækisins er um 100 milljarðar króna. Stærstu hlutirnir sem verða seldir eru í eigu Samherja og Kjálkaness, félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrum forstjóra Samherja auk annarra. Náist markmið hlutafjárútboðsins fær hvort félag tæplega 12 milljarða í sinn hlut.

Sterkt fyrirtæki en sveiflum háð

Félagið er eitt það stærsta á Íslandi og heldur utan um 7,7 prósent aflaheimilda. Aðeins Brim og Samherji halda á stærri hlut. Félagið skilaði 5,3 milljarða króna hagnaði í fyrra, þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi verið í minna lagi. Eiginfjárhlutfallið í lok árs 2020 var 68 prósent en til samanburðar er eiginfjárhlutall bankanna á bilinu 22 til 27 prósent.

Snorri Jakobsson hjá Jakobsson Capital segir Síldvarvinnsluna sterkt og vel rekið fyrirtæki. „Mörgum Íslendingum þykir náttúrlega spennandi að fjárfesta í sjávarútvegi. Þetta er náttúrlega grunnatvinnustoðin og verið mjög fá félög á markaði sem eru í þessum rekstri. Þetta eru náttúrlega gríðarlega stór félög. Hins vegar eru sveiflurnar í afkomu sjávarútvegs mjög miklar og þetta er mjög háð eins og loðnugöngum og svo framvegis.“

Síldarvinnslan hefur reyndar verið að tryggja sig fyrir sveiflum með því að bæta við sig bolfiskheimildum enda varhugavert að treysta alfarið á dyntóttan uppsjávarfisk á borð við loðnu og síld.  Það hefur fyrirtækið meðal annars gert með yfirtökum á öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.

30 prósent hið minnsta í arðgreiðslur

Samkvæmt nýsamþykktri arðgreiðslustefnu Síldarvinnslunnar er stefnt að því að arður nemi að lágmarki 30 prósentum hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Ekki var greiddur út arður í ár en miðað við hagnaðinn í fyrra hefðu arðgreiðslur samkvæmt þessu verið að minnsta kosti 1,6 milljarðar króna.

Skráning fyrirtækisins í Kauphöllina markar nokkur tímamót því Síldarvinnslan verður þá eina félagið í Kauphöllinni með höfuðstöðvar á landsbyggðinni.

Magnús Geir Eyjólfsson