Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

1,4 milljónir skammta tryggi okkur gagnvart afbrigðum

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - RÚV
Gera má ráð fyrir því að Ísland fái 1,4 milljónir skammta af bóluefni Pfizer-BioNTech, á næsta ári og því þar næsta. Embættismaður sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins segir að líta megi á skammtana sem tryggingu, verði þörf á að bólusetja aftur gegn nýjum veiruafbrigðum. 

 

Risasamningur Evrópusambandsins

Í gær greindi Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frá því á Twitter-síðu sinni, að sambandið hefði skrifað undir risasamning við Pfizer-BioNTech. Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um kaup á 900 milljónum bóluefnaskammta frá framleiðandanum, til viðbótar við þá sem þegar hafa verið keyptir. Að auki tryggði sambandið sér kauprétt á 900 milljónum skammta. Samtals eru þetta því á annan milljarð skammta af bóluefninu sem afhentir verða á árunum 2021 til 2023.

Skammtarnir væntanlegir hingað árin 2022 og 2023

Ísland á aðild að bóluefnasamstarfinu Evrópusambandsins. Richard Bergström, sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins og situr í samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB, segir að af þessum milljörðum skammta sem Evrópusambandið hefur tryggt sér af bóluefni Pfizer fái Ísland um 1,4 milljónir, skammtarnir verði afhendir á næsta ári og því þarnæsta.

Hvers vegna er verið að kaupa allt þetta efni? 

Samkvæmt orðum Bergström er ekki útlit fyrir að þessi samningur hafi áhrif á bólusetningaráætlun stjórnvalda á þessu ári. En hvers vegna eru Evrópuríki að tryggja sér alla þessa Pfizer skammta svona langt fram í tímann? Bergström segir þetta gert til þess að hægt verði að endurbólusetja fólk, jafnvel nokkrum sinnum, gegn hugsanlegum nýjum veiruafbrigðum sem gætu komið fram. Líta megi á samninginn sem tryggingarráðstöfun. Framleiðendur Pfizer-BioNTech hafa einmitt lýst því yfir að það sé auðvelt að breyta efninu lítillega þannig að það virki gegn nýjum afbrigðum. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV