Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur sig hafa fundið leið framhjá ÁTVR

08.05.2021 - 19:10
Mynd: RÚV/Kristinn Teitsson / RÚV/Kristinn Teitsson
Íslenskur víninnflytjandi telur sig hafa fundið leið fram hjá einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis hér á landi og afhendir áfengi samdægurs af lager. Fólk kaupir áfengið í vefverslun sem er hýst erlendis. Innflytjandinn fullyrðir að þetta sé löglegt og gerir ekki ráð fyrir að starfsemin verði stöðvuð.

Dómsmálaráðherra lagði í febrúar fram frumvarp um breytingar á áfengislögum sem fól meðal annars í sér að smærri brugghúsum verði leyft að selja öl á framleiðslustað. Í upphaflegum drögum frumvarpsins var að finna heimild til innlendrar netverslunar með vín í smásölu en þegar frumvarpið var lagt fram var þessa heimild ekki að finna þrátt fyrir yfirlýstan vilja dómsmálaráðherra.

Fyrirtækið í Frakklandi en lagerinn á Íslandi

Núverandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt, sér í lagi vegna þess að Íslendingar hafa getað keypt sér áfengi í gegnum erlendar netverslanir. Heildverslunin Santewines hefur um árabil flutt inn vín frá Frakklandi en í dag opnaði fyrirtækið netverslun fyrir íslenskan markað.  Það er skráð í Frakklandi og þar af leiðandi erlend netverslun. Lagerinn er hins vegar á Íslandi og vörurnar fást því afhentar  samdægurs. Morgunblaðið greindi frá málinu í morgun.

Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, fullyrðir að þessi tilhögun sé lögleg og býst ekki við að yfirvöld leggi stein í hans götu. „Við erum búin að skoða allar hliðar málsins og með ótal lögfræðiálit á því og það er engan blett að finna á þessu.“

Arnar segir þetta eðlilega framþróun smásölu áfengis. Hér áður fyrr hafi verið selt yfir borðið en nú séu einfaldlega aðrir tímar. „Það er voðalega sérstakt viðhorf að ætla sér að hafna internetinu.“

Arnar segir vel fylgst með því að einungis þeir sem náð hafa tilskildum aldri nýti sér þessa þjónustu og í ofanálag þurfi að nota rafræn skilríki til að skrá sig inn í netverslunina.