Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Strókavirknin í gosinu hætt og nú gýs úr elsta gígnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tekið er að gjósa að nýju úr fyrsta gígnum í Geldingadölum. Það staðfestir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Strókavirknin sem einkennt hefur gosið hætti nú á tíunda tímanum í morgun.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir ekki margt hægt að lesa í breytinguna. Eitthvað hafi færst til eða breyst í gosrásinni þannig að nú verði ekki það þrýstingsfall sem olli gosstrókunum. 

„Það kom stór strókur rétt eftir klukkan níu og svo er bara eins og sú virkni hætti. Það er hægt að sjá á vefmyndavélum og óróagröfum sem við fylgjumst mikið með.“ Það sé eins og nú gutli jafnt og þétt í stóra gígnum. 

Salóme segir þyrluflugmann hafa tilkynnti Veðurstofu í morgun um að hraun væri tekið að renna úr fyrsta gígnum. Staðfest sé að tekið sé að gjósa þar.

Hún segir vendingarnar sýna þessa skemmtilegu næstum endalausu sögu gossins en ekki sé mikið hægt að lesa í stöðuna núna. Greinilegt sé að breyting hafi þó orðið. 

Salóme Jórunn segir skjálfta upp á 2,7 á Bláfjallasvæðinu i nótt tengjast spennuvirkninni á svæðinu en ekki gosinu beint. Ekki sé hægt að spá um framhald gossins, og hvort það haldi lengi áfram eða ekki.

Að því er segir á Face­book-síðu Nátt­úru­vár- og eld­fjalla­hóps Suður­lands virðist sem tvö op skvetti hrauni þessa stund­ina. Annað þeirra í hrauntjörn­inni í botni gígs­ins en hitt uppi í norðan­verðri gíg­skál­inni. Það sjáist vel á vefmyndavél RÚV.

Þar kemur hið sama fram og í máli náttúruvársérfræðingsins. „Þessi aðskildi strók­ur birt­ist fyrst kl. 9.20 í morg­un eft­ir að mikið hrun varð í gígn­um kl. 8.46, þegar hæsti gíg­barm­ur­inn skreið niður í hrauntjörn­ina.“

„Seinast gaus á Reykjanesi fyrir 800 árum og ekkert okkar var á lífi þá. Við höfum því ekki bein dæmi til að fylgjast með í rauntíma og því áhugavert að sjá hvernig þetta hegðar sér,“ segir Salóme Jórunn. 

„Við verðum bara að bíða og sjá hvað þetta endist lengi. Er ekki hvert eldgos með sinn karakter og þetta er bara karakter þessa eldgoss?“