Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skilorðsbundinn dómur fyrir manndráp af gáleysi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi þrjá menn í skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, síðastliðinn fimmtudag. Þeir voru ákærðir fyrir að hafa orðið vinnufélaga sínum í Plastgerð Suðurnesja, að bana í júlí 2017.

Einn þeirra var aðstoðarverksmiðjustjóri, hinir verkstjóri og framkvæmdastjóri og meðeigendur. Brot þeirra þóttu alvarleg og hver og einn talinn bera ábyrgð á andláti starfsmannsins að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms.

Atburðarásin var með þeim hætti að hinn látni klemmdist inni í svokallaðri frauðpressuvél eftir að aðstoðarverkstjórinn gangsetti hana. Ætlun þess látna muni hafa verið að hreinsa vélina en sá sem gangsetti kvaðst ekki hafa vitað af honum þar inni.

Hann hafi ekki heldur kannað hvort þar væri einhver staddur, öryggishurð hefði átt að koma í veg fyrir gangsetningu vélarinnar, en aðstoðarverkstjórinn aftengdi þar til gerðan skynjara nokkru áður en slysið varð.

Öryggisbúnaði vélarinnar þótti mjög ábótavant og ljóst talið að allir þrír hafi vitað af því. Enginn hinna ákærðu hafði hlotið refsingu áður og tekið var tillit til þess við ákvörðun refsingar auk þess sem að við krufningu kom í ljós hár styrkur eiturlyfja í blóði hins látna.

„Í því ljósi þykir ekki ó­­var­­legt að ætla að A hafi sjálfur átt nokkra sök á slysinu,“ segir í dómi Héraðs­dóms. Einnig þótti rétt vegna óhóflegar tafa á rannsókn málsins og úgáfu ákæru að skilorðsbinda dóminn.

Því var refsing aðstoðarverksmiðjustjórans sem gangsetti vélina ákveðin 60 dagar með tveggja ára skilorði en hinna tveggja 30 daga skilborðsbundinn dómur. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV