Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Næstum eins og að vera með lítið barn á heimilinu

08.05.2021 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Hólm Agnarsson
Óvenjulegur gestur dvelur nú á heimili hjónanna Ásgeirs Hólm Agnarssonar og Elsu Guðbjargar Borgardóttur sem búsett eru í Súðavík. Selskópurinn Tóbías Eró er nánast orðinn eins og einn af fjölskyldunni en sonur hjónanna og vinur hans björguðu kópnum úr fjörunni við Ísafjarðardjúp.

Friðrik Rúnar Ásgeirsson og Elmar Atli Garðarsson höfðu fylgst með kópnum þar sem hann lá í fjörunni og bjuggust allt eins við að urtan væri að leita ætis. Þekkt sé að slíkt geti jafnvel tekið nokkurn tíma.

Á fjórða degi hvatti Ásgeir þá til að koma með kópinn heim því allt benti til að móðirin hefði yfirgefið hann. 

Selskópurinn bættist því á þriðjudaginn við nokkurn fjölda dýra sem hjá þeim býr; íslenska, átján mánaða fjárhundinn Hnífsdals-Bessa, tvo ketti, hana og tólf hænur. „Nú á Bessi hvert bein í Tóbíasi en það tók hann nokkrar mínútur að taka hann í sátt.“ Kettirnir láta hann hins vegar alveg eiga sig.

„Hundurinn verndar kópinn fyrir öllu áreiti. Til dæmis kom stór hundur í  heimsókn um daginn og Hnífsdals-Bessi hélt honum í hæfilegri fjarlægð.“

Ásgeir telur að Tóbías hafi bara verið nokkurra daga gamall þegar hann kom inn á heimilið og að selasérfræðingur í Reykjavík hafi ályktað að hann sé fyrirburi. Það sýni fínleg dúnhár sem voru á líkama hans en eru núna horfin.

Einnig geti það verið ástæða þess að móðirin ákvað að láta hann lönd og leið. „Þetta hljómar hart en svona er náttúran.“ 

Ásgeir og Elsa tóku þegar til við að koma laktósafríum rjóma í Tóbías en Arna ákvað að styrkja þau um allan þann rjóma sem hann þarf, sem eru um þrír  lítrar á dag.

„Hann var voða aumingjalegur fyrst en er allur að braggast, hættur að væla og farinn að synda í lauginni sem var keypt fyrir hann.“

Þótt kópnum fylgi mikil ánægja þarf talsvert að hafa fyrir honum. „Til dæmis þarf að þrífa heilmikinn skít upp eftir hann,“ segir Ásgeir og hlær. Það sé þó jákvæð tilfinning á COVID-tímum að hafa hann á heimilinu. 

„Hann er satt að segja ekki eins og gæludýr, þetta er frekar eins og að vera með lítið barn. Allir á heimilinu hafa tengst honum tilfinningaböndum, nema kettirnir sem láta hann eiga sig.“

Ásgeir kveðst ekki hafa fundið fyrir neikvæðum viðbrögðum en samkvæmt lögum megi ekki taka villt dýr úr náttúrunni . Hins vegar megi heldur ekki skilja dýr eftir í nauð. Hann segir að þau hefðu engan veginn getað látið hjá líða að bjarga kópnum.

„Elsa er eins og mamma hans, gefur honum og fæðir hann og klæðir. Hann steinsefur eftir að hafa fengið að eta og lætur ekkert trufla sig. Hann er sko ekkert taugaveiklaður og líður greinilega vel.“

Tóbías Eró sefur, að sögn Ásgeirs, í hundabúri í sturtuklefanum þar sem fer ljómandi vel um hann.

Hann þarf að ná fimmtán kílógramma þyngd áður en óhætt er að sleppa honum út í náttúruna. Þau ætla að reyna að fá seiði fyrir hann til að komast að því hvort hann geti veitt sjálfur, fyrr sé ekki óhætt að senda hann út í nátturuna. 

Ásgeir segir að Tóbías hafi vakið mikla athygli og að kafarar úr vinahópnum hafi boðist til að fara með hann í sjóinn til æfinga.