Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjarlægja sprengju frá tímum seinni heimsstyrjaldar

08.05.2021 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd: Peter Halkjær/DR
Sprengjusérfræðingar vinna nú að því að grafa upp og fjarlægja 250 kílóa sprengju sem hefur legið undir fótboltavelli í þýsku borginni Flensborg um áratuga skeið. Þúsundir hafa þuft að yfirgefa heimili sín. 

Sprengjan er bandarísk að uppruna og líklegast þykir að henni hafi verið varpað á borgina í mikilli loftárás í maí 1943.

Talið er fimmta hver þeirra ríflega milljón sprengja sem varpað var á Þýskaland í stríðinu hafi ekki sprungið. Sjaldgæft sé þó að sprengjur finnist á þessum slóðum. 

Sprengjusérfræðingar eru komnir til borgarinnar með það að markmiði að gera sprengjuna óvirka áður en hún verður grafin upp og fjarlægð.

Um það bil 16.500 manns hafa yfirgefið heimili sín sem er bráðnauðsynlegt að sögn Clemens Teschendorf talsmanns borgarinnr, enda sé alltaf hætta að gamlar sprengjur springi.

Sprengjan sé stór og því þurfi rýmingarsvæðið að vera víðáttumikið. Annað sjúkrahúsa borgarinnar er innan rýmingarsvæðisins en ekki var öllum sjúklingum gert að yfirgefa það. 

Maureen Hoelzl sem býr í 100 metra fjarlægð frá fótboltavellinum kveðst ekki vera óttaslegin en að henni renni kalt vatn milli skinns og hörunds við þá tilhugsun að sprengjan hefði sprungið meðan einum af mörgum fjölmennum viðburðum á vellinum stóð.

Hún segist vonast til að geta snúið fljótlega heim aftur og að hún hafi fulla trú á sprengjusérfræðingunum. Búist er við að ef allt gengur vel geti fólk snúið til síns heima síðdegis í dag.
 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV