Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Faraldurinn fer hríðversnandi á Indlandi

08.05.2021 - 06:32
epa09183250 A relative sits near the dead body of a Covid-19 positive patient at the Covid-19 hospital in Ahmedabad, India, 07 May 2021. According to the Indian Ministry of Health, India recorded 414,000 fresh Covid-19 cases in the last 24 hours.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Í fyrsta sinn greina indversk yfirvöld frá því að fleiri en fjögur þúsund hafi dáið af völdum COVID-19 í landinu á einum sólarhring. Nærri 4.200 dóu í gær og rúmlega 400 þúsund greindust með COVID-19. Það er þriðji dagurinn í röð sem fleiri en 400 þúsund tilfelli greinast á einum sólarhring. Tilfellin eru nú alls 21,9 milljónir og yfir 238 þúsund eru látnir.

AFP fréttastofan segir sérfræðinga efast verulega um að opinberar tölur um fjölda látinna séu réttar. Þeir segja einnig að mögulega eigi þessi bylgja sem nú ríður yfir landið ekki eftir að ná hámarki fyrr en undir lok þessa mánaðar.
Ástandið virðist vera að ná stöðugleika í stórborgum á borð við Nýju Delhi og Mumbai. Þangað er búið að flytja nýjar birgðir af súrefnistækjum og koma nýjum hjúkrunarrýmum fyrir.

Faraldurinn geisar hins vegar sem aldrei fyrr í sunnanverðu landinu og á strjálbýlli svæðum. Í borginni Bangalore er ástandið verulega slæmt. Yfir 1.900 dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð þar í apríl, en fyrstu sjö dagana í maí eru þau þegar orðin fleiri en 950. Þar skortir súrefni og gjörgæslurými.

Þá fer bylgjan af miklum mætti yfir Vestur Bengal-hérað. Tilfellum hefur farið hratt fjölgandi frá indversku kosningunum. Bæði forsætisráðherrann narendra Modi og helsti andstæðingur hans, héraðsstjórinn Mamata Banerjee, héldu fjölmenna útifundi víða um héraðið í aðdraganda kosninganna.