Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slökkvilið gengur bakvaktir af ótta við gróðurelda

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sextán slökkviliðsmenn í Slökkviliði Borgarbyggðar ganga bakvaktir um helgina. Þetta gert í varúðarskyni vegna hættu á gróðureldum. Þá fá þeir sem leggja leið sína í sumarbústað á skógríkum svæðum á Vesturlandi viðvörun um þurrkana í textaskilaboðum. Slípirokkur, eldstæði eða jafnvel grill nálægt gróðri geta kveikt gróðurelda.

Góðan skúr gerði eftir hádegi á Suðurlandi og slydda var á Hellisheiði. Þessi væta breytir ekki miklu því áfram halda þurrkar næstu daga. Íbúar og sumarbústaðaeigendur í Skorradal, Húsafelli og víðar á Vesturlandi hafa hins vegar ekki séð dropa falla dögum saman. Þar er allt skraufþurrt og óvissustig almannavarna hefur verið virkjað.

Fjöldi fólks í sumarbústöðum

Heiðar Örn Jónsson, eldvarnaeftirlitsmaður og varaslökkviliðsstjóri, segir að fjöldi fólks hafi lagt leið sína í sumarbústaði. 

„Í dag hófst í raun bakvakt slökkviliðsmanna hér í Borgarbyggð og erum við með 16 slökkviliðsmenn á bakvakt sem eru til að tryggja fyrsta viðbragð á öllum stöðum. Við erum með bakvakt í Borgarnesi, á Hvanneyri, í Reykholti og á Bifröst,“ segir Heiðar Örn. 

Margir slökkviliðsmenn hafi hætt við að fara út á land í fríum til þess að geta stokkið til ef þannig ástand skapast. 

Þá hefur verið komið upp svokölluðum sms-girðingum í Skorradal sem felur í sér að þeir sem fara inn í dalinn fá textaskilaboð í símana um hættuna á gróðureldum. Svo var ákveðið að fjölga þessum svæðum.

Ekki vera með grill nálægt gróðri

„Þeir sem fara í Húsafell, Munaðarnes, eitthvað í átt að Snæfellsnesi, þeir fá sms um að vera vinsamlegt að vera ekki með eld nálægt gróðri, hvort sem það er slípirokkur, eldstæði eða jafnvel grill. Við vonum að fólk virði það svo við þurfum ekki að heimsækja það,“ segir Heiðar Örn. 

Jafnframt stendur til að koma fyrir báti á Skorradalsvatni sem unnt verður að nýta þurfi fólk að flýja dalinn í skyndi.

Þeir sem dvelja í sumarbústað á gróðursælum stöðum geta gripið til ýmissa forvarna. Til að mynda að vökva gróður, fjarlægja tré sem standa upp við sumarhús og vera með slökkvitæki við hendina. Á vefnum grodureldar.is má finna ýmis góð ráð. 

Þá hefur samstarf við nágrannaslökkvilið verið aukið. 

Vantar flóttaleið úr Skorradal

 Skorradalur er 25 kílómetra langur og nokkuð þröngur. Fyrir tveimur árum sagði Fréttastofa RÚV frá því að flóttaleið vantaði úr Skorradal:

Þá gagnrýndi oddviti Skorradalshrepps að vegur um Uxahryggi sem hugsaður er sem flóttaleið væri í slæmu ástandi og illfær fólksbílum. Heiðar Örn segir að staðan hafi ekki breyst. Þá hefur líka verið erfitt fyrir dælubíla slökkviliðs að komast í vatn því slóðar sem liggja að vatninu eru þröngir. 

„Það er til þessi viðbragðsáætlun fyrir Skorradalinn sem er frábært verkfæri,“ segir Heiðar. Í samstarfi við sumarhúsaeigendur og sveitarfélagið verði reynt að bæta úr.