Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skora á stjórnvöld að koma Indverjum til hjálpar

07.05.2021 - 19:05
Erlent · Innlent · COVID-19
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tæplega fjögur þúsund létust af völdum COVID-19 á Indlandi í gær, samkvæmt tölum yfirvalda, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring. Talið er líklegt að dauðsföllin séu mun fleiri. Rauði krossinn á Íslandi skorar á stjórnvöld hér á landi að koma til hjálpar.

Kórónuveirufaraldurinn geisar stjórnlaust á Indlandi. Rúmlega 414 þúsund greindust með smit í gær, sem er metfjöldi, og tæplega fjögur þúsund létust af völdum COVID-19. Mikill skortur er á sjúkrarúmum, öndunarvélum og bóluefni, og líkbrennslustofur og kirkjugarðar eru yfirfullir.

Indverjum hefur undanfarnar vikur borist aðstoð víða að. Í dag sendu Bretar þeim til að mynda þúsund öndunarvélar. Rauði krossinn á Íslandi skorar á stjórnvöld hér á landi að koma Indverjum til hjálpar en það hefur verið til skoðunar í utanríkisráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu.

„Auðvitað erum við lítið land í stóra samhenginu en okkur gengur vel. Við stöndum vel og þetta er auðvitað ekki alltaf spurning um stærð eða hver sendir mestu hjálpina. Það er að margt smátt gerir eitt stórt. Við sjáum að sum lönd eru að senda einhverja tugi eða hundruð öndunarvéla eða hvað það er og það tínist allt saman,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

Hann vonar að stjórnvöld í ríkjum sem hefur gengið vel í baráttunni við faraldurinn leggi nú aukna áherslu á að hjálpa öðrum verr stöddum.

„Við verðum að átta okkur á því að við verðum að glíma við þessa veiru alveg þangað til að þetta er komið á betri stað alls staðar. Fyrr erum við ekki laus úr krumlu veirunnar,“ segir Gunnlaugur.