Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Methelgi í komu farþegavéla

07.05.2021 - 08:16
Gylfi Þór Þorsteinsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Von er á 17 farþegavélum hingað til lands um helgina og hafa ekki verið fleiri það sem af er þessu ári. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður sóttkvíarhótela segir ekki útilokað hótelin fyllist á næstu dögum.

 

Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur verið að aukast á undanförnum vikum. Átta farþegavélar lenda í Keflavík á morgun samkvæmt áætlun og níu á sunnudag.

Þrjú sóttkvíarhótel eru á höfuðborgarsvæðinu og geta þau tekið á móti um 500 gestum. Þriðja hótelið, með rúmlega 80 herbergjum, var opnað um síðustu helgi.

Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður sóttkvíarhótela segir að mögulega þurfi að opna nýtt sóttkvíarhótel á næstu dögum en um 450 gistu á hótelunum í nótt.

"Við erum að skoða það. Dagurinn fer svolítið í það. Við vitum að það er mikið af fólki að koma núna um helgina eða svo virðist vera í það minnsta. Þannig að við þurfum að gera plönin fyrir helgina og skoða þetta og dagurinn fer í það hjá okkur,“ segir Gylfi.

Gylfi segir einnig algengt að fólk kjósi að dvelja á sóttkvíarhótelunum jafnvel þó það megi vera í sóttkví á öðrum stað.

„Og það hefur verið töluverður fjöldi af slíkum farþegum að koma til okkur. Þeir sem ekki eru skyldugir til þess. Ef það heldur áfram líka þá getum við lent í vandræðum mjög fljótt,“ segir Gylfi. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV