Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Landsfundur Vinstri grænna: Saman til framtíðar

Frá landsfundi VG 7. maí 2021
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Rafrænn landsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefst í dag og verður fram haldið á morgun. Yfirskrift fundarins er Saman til framtíðar. Hann er haldinn á Hilton Nordica í Reykjavík og hefst á ávarpi formannsins, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

 

Að lokinni ræðu Katrínar Jakobsdóttur formanns flytur Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, erindi. Í kjölfarið hefjast almennar stjórnmálaumræður uns fundi verður frestað til morgun.

Dagskráin heldur áfram klukkan hálftíu í fyrramálið með kynningu málefnahópa á framtíðarstefnumótun flokksins.

Audun Lysbakken, formaður Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi, Li Anderson formaður finnska Vinstriflokksins og Högni Hoydal fyrrverandi utanríkisráðherra Færeyja flytja þá stutt ávarp.

Að því búnu hefjast pallborðsumræður um þungunarrof og femínískan aktivisma sem Fríða Rós Valdimarsdóttir stjórnar. Viðmælendur hennar eru Justyna Grosel, blaðamaður frá Póllandi, Kathy D‘Arcy ljóðskáld og aktivisti frá Írlandi og Silja Bára Ómarsdóttir, doktor í stjórnmálafræði.

Að loknu hádegishléi verða atkvæðagreiðslur um stefnumál, ályktanir og tillögur en búist er við að fundi verði frestað um hálfþrjú, verði tillaga stjórnar um framhaldslandsfund í í ágúst samþykkt.