Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Katrín: Líðandi kjörtímabil lærdómsríkt og óvenjulegt

Mynd með færslu
 Mynd: Vinstri hreyfingin grænt frambo
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í formannsávarpi sínu á rafrænum landsfundi Vinstri grænna sem hófst sídegis að kjörtímabilið hafi verið óvenjulegt og lærdómsríkt. Það sé ekki síst vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

„Þegar við horfum á árangurinn hefur mikill málefnalegur árangur hefur náðst hvert sem litið er; árangur sem skiptir máli fyrir Ísland. Það er drifkraftur okkar hreyfingar, það sem lætur okkur vakna á morgnana og halda áfram.“ 

Í sjónvarpsfréttum í kvöld ítrekaði Katrín að flokkurinn færi óbundinn til kosninga. Aðspurð hvort núverandi stjórnarsamstarf væri fyrsti kostur, sagði Katrín að málefni Vinstri grænna yrðu að vera í fyrirrúmi í stjórnarsamstarfi flokksins.

Í ávarpi sínu á þinginu stiklaði hún á stóru um það helsta sem ríkisstjórnin hefði áorkað á kjörtímabilinu, þar á meðal aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, auknar friðlýsingar, ný lög um þungunarrof og rétt fólks til að velja sér kyn. 

„Stytting vinnuvikunnar er mikilvægt framfaramál og auk þess voru stærstu breytingar sem gerðar hafa verið árum saman gerðar á vaktavinnufyrirkomulagi, sem er mikilvægt skref til að bæta kjör stórra kvennastétta sem eru meirihluti vaktavinnufólks.“

Hún nefndi hlutdeildarlán til tekjulægri húsnæðiskaupenda og að með þeim hafi þeim hópi verið gert kleift að kaupa sitt fyrsta heimili. Stuðningur við félagslegt húsnæðiskerfi sé undirstaða stöðugleika á húsnæðismarkaði.

„Ný upplýsingalög voru sett, ný lög um vernd uppljóstrara og ný lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum,“ sagði Katrín. Hún talaði um jarðakaupalög sem eigi að tryggja að land safnist ekki á fárra hendur.

Sömuleiðis fjallaði hún um stefnu stjórnarinnar varðandi þjóðlendur á Íslandi, sem hún sagði skipta komandi kynslóðir máli. „Og fyrir þinginu liggja frumvörp um þjóðgarð á hálendi Íslands og breytingar á stjórnarskrá.“

Katrín gerði heimsfaraldurinn að umtalsefni, mikilvægi heilbrigðiskerfisins og að skólarnir hafi haldið sínu striki. Svandís Svavarsdóttir fékk lófaklapp landsfundargesta vegna starfa sinna í heilbrigðisráðuneytinu. Sérstaklega vildi hún þakka öllu því fólki sem lagt hefði sitt af mörkum.

 

„Og hvað það skiptir miklu máli að eiga öflugt vísindafólk og fagfólk sem lætur allt annað til hliðar til að vinna samfélagi sínu gagn á ögurstundu.“

Undir lok ræðunnar talaði Katrín um stöðu eldri borgara og jafnréttismál. „Um leið og þörf er á að endurskoða lífeyristökualdur til hækkunar þurfa sveigjanleg starfslok að vera raunverulegur valkostur því ekki hafa allir þrek eða heilsu til að lengja starfsævi sína.“

Þrátt fyrir að margir tryðu því að jafnrétti væri náð á Íslandi sagði Katrín, enn væri nokkuð í land. Þrátt fyrir réttarbætur gagnvart þolendum kynferðisofbeldis þyrfti að stíga enn stærri skref til að bæta stöðu þeirra.

„Enn er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni meinsemd í samfélaginu eins og sést á öllum þeim þolendum sem enn og aftur stíga fram af hugrekki og lýsa ofbeldi og áreitni.“

 

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands ávarpaði fundinn að lokinni ræðu Katrínar en nú standa almennar stjórnmálaumræður yfir þar til fundi verður frestað síðar í kvöld.
 

Fréttin hefur verið uppfærð með því sem kom fram í sjónvarpsviðtali við Katrínu í kvöldfréttum.