Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fyrrum barnahermaður dæmdur í 25 ára fangelsi

epa09181356 A handout photo made available by the International Criminal Court (ICC) shows former commander of the Ugandan guerilla group 'Lord's Resistance Army' (LRA) Dominic Ongwen during his trial at the International Criminal Court (ICC) in The Hague, The Netherlands, 06 May 2021. The ICC sentenced Ongwen to 25 years of imprisonment for crimes against humanity and war crimes, commited in Northern Uganda between July 2002 and December 2005.  EPA-EFE/INTERNATIONAL CRIMINAL COURT HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - INTERNATIONAL CRIMINAL COURT
Alþjóðaglæpadómstóllinn dæmdi Dominic Ongwen í gær í 25 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Ongwen var leiðtogi Andspyrnuhreyfingar drottins í Úganda, sem herjaði landsmenn og nágrannaríki frá miðjum níunda áratug síðustu aldar þar til fyrir nokkrum árum.

Ongwen var dæmdur í febrúar fyrir morð, nauðganir, kynlífsþrælkun, mannrán og pyntingar í tíð hans sem foringi hreyfingarinnar. Hann var þvingaður til liðs við hana þegar honum var rænt tíu ára gömlum. Dómstóllinn féllst ekki á þau rök verjenda hans að Ongwen hafi verið þvingaður til þess að beita ofbeldi.

Málið er eitt það þýðingarmesta sem komið hefur á borð alþjóðaglæpadómstólsins þau átján ár sem hann hefur verið starfræktur að sögn Guardian. Ongwen er fyrsti fyrrum barnahermaðurinn sem situr á sakamannabekk hjá dómstólnum. Lögmenn hans sögðu ekki hægt að réttlæta þyngri dóm en tíu ár, þar sem Ongwe hafi verið andlega skaddaður eftir að hafa verið rænt af andspyrnuhreyfingunni tíu ára að aldri.

Dómarar mátu mál hans hins vegar þannig að árásir hans hafi verið úthugsaðar. Hann hafi metið áhættuna sem fylgdi aðgerðum sínum og honum hafi ítrekað verið hrósað af öðrum herforingjum. Honum hafi aldrei verið hótað öllu illu fyrir að óhlýðnast skipunum og hafi aldrei nýtt þau fjölmörgu tækifæri sem hann hlaut til að yfirgefa andspyrnuhreyfinguna.
Flestar ákærurnar gegn Ongwen snerust um árásir á flóttamannabúðir á árunum 2002 til 2005. Þaðan rændi hreyfingin fjölda barna innan fimmtán ára aldurs, færði þeim vopn í hönd og þvingaði þau til bardaga. 

Fimm leiðtogar Andspyrnuhreyfingar drottins voru ákærðir til alþjóðaglæpadómstólsins. Aðeins tveir þeirra eru á lífi, Ongwen og Joseph Kony. Kony hefur tekist að fara huldu höfði þrátt fyrir að fimm milljón bandaríkjadala fé sé heitið þeim sem geti veitt upplýsingar um það hvar hann geti verið. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV