Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bjóða Íslendingum Spútnik V fyrir 200 þúsund manns

07.05.2021 - 14:25
epa09029567 A nurse prepares a dose of the Sputnik V vaccine, during the vaccination campaign against COVID-19, in the National Hospital of Itaugua, Paraguay, 22 February 2021. A 40-year-old nurse was the first person to be vaccinated against the covid-19 in Paraguay, where the immunization campaign began on 22 February with a shipment of 4,000 doses of Sputnik V, reserved for health personnel in the South American country, with 3,000 deaths from the pandemic and more than 150,000 cases.  EPA-EFE/Nathalia Aguilar
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Framleiðendur rússneska bóluefnisins Spútnik V hafa boðið Íslendingum skammta fyrir 200 þúsund manns til kaups. Íslensk stjórnvöld skoða möguleika á að kaupa skammta fyrir 100 þúsund manns að því gefnu að stærstur hluti þeirra verði afhentur fyrir 2. júní og að bóluefnið verði komið með markaðsleyfi á sama tíma.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi ríkisstjórn frá stöðu mála á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu hefur Russian Direct Investment Fund sent íslenskum yfirvöldum viljayfirlýsingu um að hefja samningaviðræður. Það var gert eftir fund fulltrúa utanríkisráðuneytisins með fulltrúum framleiðanda og þróunaraðila bóluefnisins. Í viljayfirlýsingunni sem Rússar lögðu fyrir Íslendinga kemur fram að Íslandi standi til boða að kaupa skammta fyrir 200 þúsund manns.

Innan íslenska stjórnkerfisins hefur verið unnið að viðbrögðum við viljayfirlýsingunni. Í drögum að athugasemdum við hana er lagt til að samningar hljóði upp á kaup á meðferð fyrir 100 þúsund manns. Þá þurfi að afhenda að minnsta kosti 75 prósent keyptra skammta í síðasta lagi 2. júní. Ekkert verði þó af þessu nema Spútnik V fái markaðsleyfi í Evrópu í síðasta lagi 2. júní. Hér er þó aðeins um viljayfirlýsingu að ræða, sem ekki hefur verið undirrituð, og hún felur ekki í sér skuldbindingu um að íslensk stjórnvöld kaupi skammta af Spútnik V.

Íslensk stjórnvöld hafa þegar samið um kaup á bóluefni Pfizer sem dugar fyrir 245 þúsund manns, bóluefni Moderna sem dugar fyrir 147.250, bóluefni Astra Zeneca sem dugar fyrir 115 þúsund og bóluefni Janssen sem dugar fyrir 235 þúsund manns. Einnig hefur verið samið um kaup á bóluefni CureVac fyrir 90 þúsund manns en prófunum á því bóluefni er ekki lokið. Það bóluefni sem Íslendingar hafa þegar tryggt sér dugar fyrir bólusetningu 832.250 manns og samningur við Rússa myndi bæta við skömmtum fyrir 100 þúsund til viðbótar.