Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ánægja með landamærareglurnar samkvæmt Þjóðarpúlsi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Meirihluti landsmanna er ánægður með nýjar landamærareglur stjórnvalda samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Nýju reglurnar voru kynntar undir lok aprílmánaðar og tóku gildi viku síðar.

Meðal þess sem þær fela í sér er að ferðamönnum frá skilgreindum áhættusvæðum sé skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnarhúsi undir eftir eftirliti. 

Niðurstöður Þjóðarpúlsins sýna að hátt í 66% eru ánægð með reglurnar en 18% óánægð. Einnig kemur fram að aðeins 2% svarenda hefðu viljað hafa reglurnar rýmri en nærri þrjú af hverjum fjórum hefðu viljað hafa þær strangari.

Fjórðungur vill hafa þær eins og þær eru en 96% þeirra sem eru óánægð með reglurnar vilja hafa þær strangari en 3% rýmri. Yngra fólk vill að jafnaði að reglurnar séu strangari en ólíklegra er að háskólamenntuðum finnist það en þeim sem minni menntun hafa.

Fólk kveðst almennt þekkja reglurnar ágætlega, 65% segjast þekkja þær vel en 12% illa. Eldra fólk virðist þekkja reglurnar betur en þau sem yngri eru og ánægja með reglurnar er almennt meiri meðal eldra fólks en yngra.

Fram kemur að lítill munur sé á svörum um þekkingu á landamærareglunum hvort sem fólk segist ánægt eða óánægt með þær en þau sem kjósa Pírata segjast þekkja þær minnst en kjósendur Samfylkingar mest.

Stuðningsfólk Vinstri grænna kveðst ánægðast með þær. Óánægja með reglurnar er hins vegar mest meðal kjósenda Miðflokksins, Pírata og Samfylkingar.

Líklegra er að stuðningsfólk tveggja síðarnefndu flokkanna vilji hafa reglurnar strangari en fylgismenn annarra flokka. Meiri líkur eru á að þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn vilji hafa þær rýmri en aðrir.

Lagaheimild heilbrigðisráðherra að skylda ferðamenn frá hááhættusvæðum í sóttkví eða einangrun í sóttvarnarhúsi er ætlað að gilda til 30. júní næstkomandi.