Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vilja ekki bankaþjónustu í gegnum „einhvern sjálfsala“

06.05.2021 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Í fyrsta skipti í 130 ár er nú engin bankaþjónusta á Blönduósi, en í gær var síðasti opnunardagur útibús Arion banka á staðnum. Sveitarstjórinn segir að margir hyggist hætta viðskiptum við bankann, Blönduósbær þar á meðal.

Það var í vetur sem Arion banki tilkynnti þá ákvörðun að loka útibúi bankans á Blönduósi fimmta maí og sameina það útibúinu á Sauðárkróki.

Segir ótækt að hafa enga bankaþjónustu 

Arion banki var eini bankinn á Blönduósi og Valdimar Hermannsson sveitarstjóri segir þetta mikil vonbrigði. „Það er bara algerlega ótækt að svo sé. Það eru mikil vonbrigði eins og við höfum lýst yfir og bókað um í sveitarstjórn að hér skuli ekki vera bankaþjónusta, eða þjónusta fjármálastofnunar, nema í gegnum einhvern sjálfsala.“ 

Blönduósbær í viðræðum við annan banka um viðskipti

Sveitarstjórn hafði lýst því yfir að aðrir kostir yrðu skoðaðir varðandi bankaviðskipti og Valdimar segir að Blönduósbær muni nú að öllum líkindum færa sig í annan banka. „Við erum þegar komnir í viðræður við aðra fjármálastofnun um það og það verður væntanlega bókað um það á fundi sveitarstjórnar næstkomandi þriðjudag.“

Fjöldi fólks hafi tekið út alla sína peninga hjá bankanum

Hann segir að til sín hafi komið einstaklingar, sérstaklega fullorðið fólk, ásamt fulltrúum fyrirtækja og stofnana sem ýmist hafi þegar fært bankaviðskipti sín annað eða ætli sér að gera það á næstunni. „Já, þeir lokuðu og voru með síðustu opnun í gær. Og það var fjöldi fólks allan daginn að taka út alla sína fjármuni hjá bankanum á síðasta opnunardegi hér á staðnum.“