Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þingmenn hvetja stjórnvöld til að viðurkenna þjóðarmorð

Mynd með færslu
 Mynd: Píratar
Hópur þingmanna úr nokkrum stjórnmálaflokkum hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að íslensk stjórnvöld viðurkenni að framið hafi verið þjóðarmorð á Armenum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Þetta er í sjöunda skipti sem tillaga þess efnis er lögð fram í þinginu en Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og einn tillöguhöfunda, rekur í aðsendri grein á Kjarnanum hvernig sendiherra Tyrklands lagði hart að íslenskum þingmönnum vorið 2012 að samþykkja ekki tillöguna.

Þá hafi tillagan dagað uppi í utanríkismálanefnd eftir að náðist að mæla fyrir henni í fyrsta og eina skiptið. Nýverið ákvað Joe Biden Bandaríkjaforseti að viðurkenna að atburðir áranna 1915-1917 væru þjóðarmorð.

Á þeim árum er talið að þjóðhreinsunaraðgerðir ósmanska veldisins hafi orðið til þess að allt ein og hálf milljón Armena týndu lífi. Biden varð þar með fyrstur Bandaríkjaforseta til að taka þá afstöðu en Tyrkir hafa um áratugaskeið barist gegn viðurkenningu þjóðarmorðsins.

Það hefði fyrst og fremst verið hluti átaka á tímum heimsstyrjaldar. Aðdragandi og saga þjóðarmorðsins er rakin í tilögunni en Armenar innan ósmanska veldisins höfðu sóst eftir sjálfsstjórn um nokkuð skeið og voru tugþúsundir þeirra teknir af lífi skömmu fyrir aldamótin 1900 þess vegna.

Ungtyrkir sem náðu völdum innan ríkisins árið 1908 stóðu fyrir útrýmingu á þeim sem gætu staðið í vegi fyrir altyrknesku ríki, að þvi er fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Við tóku miklir fólksflutningar sem urðu fjölda fólks að aldurtila. Atburðunum hefur verið lýst sem þjóðarmorði í skýrslu Sameinuðu þjóðanna ásamt því að Evrópuráðið, Evrópuþingið, 48 ríki Bandaríkjanna og ríflega 30 ríki heims hafa samþykkt ályktanir sem viðurkenna atburðina sem þjóðarmorð.

„Löngu tímabært er að íslensk stjórnvöld viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni,“ segir í tillögu þingmannanna. 

Flutningsfólk tillögunnar eru þau Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Olga Margrét Cilia, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.