Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sölvi Tryggvason kærður fyrir líkamsárás

06.05.2021 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd: FB
Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason hefur verið kærður fyrir líkamsárás á konu. Árásin er sögð hafa átt sér stað á heimili konunnar í mars. Önnur kona hefur óskað eftir skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hún sakar Sölva um að hafi brotið gegn sér kynferðislega í júní á síðasta ári.

Þetta staðfestir Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður kvennanna, við fréttastofu.

Hún segir að kæran fyrir líkamsárásina hafi verið lögð fram hjá lögreglunni í Kópavogi. Aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni þar sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta veitt upplýsingar um einstök mál.

Kristrún upplýsir jafnframt að hún hafi í gær sent erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir hönd hinnar konunnar þar sem óskað er eftir skýrslutöku vegna ásakana á hendur Sölva fyrir kynferðisbrot.  Nokkrir dagar geta liðið þar til sú skýrslutaka fer fram. 

Kristrún sendi yfirlýsingu til fjölmiðla í gærkvöld þar sem hún greinir frá ásökunum kvennanna. Mál Sölva hafði þá verið í hámæli eftir að hann bar af sér sakir í eigin hlaðvarpsþætti.

Tilefni þáttarins var frétt sem birtist á vef Mannlífs þar sem vísað var til færslu á samfélagsmiðli um að ónafngreindur en þjóðþekktur einstaklingur hefði gengið í skrokk á konu um miðjan síðasta mánuð.

Sölvi taldi fréttina eiga við sig og upplýsti að hann hefði sjálfur haft samband við lögreglu fyrir nokkru vegna konu sem hann sagði hóta sér mannorðsmorði. 

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður Sölva, vildi ekki tjá sig þegar fréttastofa náði af henni tali. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV