Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rúmlega 24 milljarða viðsnúningur í rekstri bankanna

06.05.2021 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins voru rúmir 17 milljarðar króna. Þetta er ljóst eftir að Landsbankinn birti ársfjórðungsuppgjör sitt í morgun, þar sem greint var frá 7,6 milljarða króna hagnaði.

Þetta er umtalsverður viðsnúningur frá sama tíma í fyrra, þegar tap bankans var 3,6 milljarðar króna. Í uppgjörinu kemur fram að þetta megi rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og áfram horfur á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021. 

Eigið fé Landsbankans var 261,4 milljarðar króna í lok mars og ákveðið var í kjölfarið að greiða rúma 4,4 milljarða í arð til hluthafa. Ríkið á rúmlega 98% hlut í bankanum.

Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að yfir tvö þúsund íbúðalán voru tekin hjá bankanum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þar af voru nærri 400 að kaupa sína fyrstu íbúð. Hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði er nú nærri 27% og hefur aldrei verið hærri.

Sjö milljarða tap á sama tíma í fyrra

Í gær var greint frá því að Arion banki hagnaðist um sex milljarða á fyrsta ársfjórðungi og Íslandsbanki um 3,7 milljarða. Samanlagður hagnaður bankanna þriggja er því 17,2 milljarðar króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Á sama tíma í fyrra tapaði Arion banki tveimur milljörðum, Íslandsbanki 1,4 milljörðum og Landsbankinn 3,6 milljörðum. Það gerir alls sjö milljarða króna tap.

Viðsnúningur bankanna milli ára er því 24,2 milljarðar króna.