Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Röð eins og fyrir stórtónleika eða risalandsleik

Metfjöldi var bólusettur 6. maí og því mynduðust langar raðir í Laugardalnum síðdegis.
 Mynd: Bjarni Rúnarsson
Gríðarleg aðsókn hefur verið í bólusetningu í dag og því hefur löng röð fólks myndast sem nær allt frá Laugardalshöll upp á Suðurlandsbraut. Dúndrandi danstónlist bíður fólksins þegar inn í Laugardalshöll er komið.

Mikil akandi umferð er um dalinn og nærliggjandi götur og hefur lögregla sinnt umferðarstjórnun. Til stendur að slá bólusetningarmet í dag en 14 þúsund hafa verið boðuð í sprautu.

Hver og einn fær bóluefni Astra Zeneca en aldrei hafa fleiri verið bólusettir á einum degi síðan bólusetningar hófust hér í lok síðasta árs. Þegar inn er komið tekur þrautþjálfað starfsfólk við sem tryggir að bólusetningin sjálf taki skamman tíma. 

Meðal þeirra sem fengu sprautu í dag eru Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.  

Plötusnúðurinn og útvarpsmaðurinn Daddi Guðbergsson sér um að halda uppi stuðinu með því að spila dúndrandi danstónlist, og þá tónlist sem vinsælust var á sokkabandsárum margra þeirra sem bólusett eru þennan daginn.

Heyra mátti helstu smelli hljómsveita á borð við Duran Duran og ELO hljóma úr hátalarakerfinu og ekki laust við að gamlir danstaktar hafi tekið sig upp meðan nýbólusettir sátu og biðu þess að ganga út í sólbjartan vordaginn að lokinni bólusetningu.