Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Prins sakaður um að hafa fellt stærsta björn Evrópu

06.05.2021 - 06:23
In this Oct. 2019 handout photo provided by NGO Agent Green, Arthur, a 17 year-old bear, is seen in the Covasna county, Romania. Romanian police will investigate a case involving Emanuel von und zu Liechtenstein, an Austrian prince who is reported to have "wrongly" killed the massive male bear in a trophy hunt on a visit to the country's Carpathian Mountains in March, 2021. (Agent Green via AP)
 Mynd: AP
Emanuel, prins af Liechtenstein, er sakaður um að hafa drepið stærsta skógarbjörn Rúmeníu. Prinsinn var með leyfi fyrir því að skjóta birnu sem hafði valdið miklum skemmdum á sveitabæjum í Ojdula, en er sagður hafa farið djúpt inn í skóginn og drepið björninn Arthur. 

Arthur var drepinn í mars á verndarsvæði í Karpatafjöllum. Í sameiginlegri yfirlýsingu rúmenskra og austurrískra dýraverndunarsamtaka er fullyrt að prinsinn Emanuel hafi drepið björninn. AP fréttastofan kveðst hafa fengið að sjá gögn sem staðfesta að prinsinn hafi fengið fjögurra daga veiðileyfi í Covasna-sýslu í mars. 13. mars hafi hann fellt 17 ára björn, gegn sjö þúsund evra greiðslu, jafnvirði rúmlega einnar milljónar króna.

Guardian hefur eftir Gabriel Paun, formanni rúmensku dýraverndunarsamtakanna Agent Green, að Arthur hafi verið 17 ára og stærsti björn sem vitað var af í Rúmeníu, jafnvel sá stærsti í gervöllu Evrópusambandinu. Paun kveðst velta því fyrir sér hvernig prinsinn hafi getað ruglast á birnu sem venur komur sínar í nærliggjandi þorp og stórum birni sem heldur sig djúpt inni í skóginum. Hann kveðst full viss um að prinsinn hafi ekki komið til að leysa vanda bændanna í nágrenninu, heldur til að veiða þann stærsta og halda heim með verðlaunin.

Skógarbirnir eru friðaðir í Rúmeníu. Rúmensk yfirvöld samþykktu jafnframt lög gegn minjagripaveiðum árið 2016. Þau veita þó stundum undanþágu ef birnirnir hafa valdið alvarlegum skaða eða ógna fólki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV