Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nær hlutleysiskrafan til hlaðvarpa?

Mynd: Podcast Sölva Tryggva / YouTube

Nær hlutleysiskrafan til hlaðvarpa?

06.05.2021 - 21:01

Höfundar

Í vikunni tók einn vinsælasti hlaðvarpsstjórnandi landsins viðtal við sjálfan sig með fulltingi lögmanns síns um mál sem nú hefur verið kært til lögreglu. Hvað segir þetta viðtal um fjölmiðlalandslag samtímans?

Í gærkvöldi greindi Fréttablaðið frá því að tvær konur hefðu leitað til lögreglu í tengslum við meint ofbeldi fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar og önnur lagt fram kæru. Sjálfur hafði Sölvi sent frá sér yfirlýsingu, birt skjáskot úr málaskrá lögreglu og notað viðtalsþátt sinn, eitt allra vinsælasta hlaðvarp landsins, til að koma sínu sjónarmiði á framfæri áður en tilkynnt var um kæruna.

Samfélagsmiðlar loga enn af umræðum tengdu málinu og þá ekki síst út frá hlaðvarpsþætti Sölva en það þykir tíðindum sæta að fjölmiðlamaður taki viðtal við sjálfan sig. 

Áður en málið kom upp hafði reyndar oft verið hent gaman að því að í viðtölum Sölva við þekkt fólk leyndust líka einskonar viðtöl við hann sjálfan.

Viðtalsstíllinn hluti af vörumerkinu

Viðtöl við þekkt fólk um erfiðar upplifanir og áföll eru einn af hornsteinum íslenska hlaðvarpsheimsins. Þar hefur Sölvi farið fremstur í flokki miðað við fyrirliggjandi kannanir. Sögurnar sem hann segir viðmælendum af sjálfum sér virðast því ekki spilla fyrir hlustunartölum og raunar hefur Sölvi sjálfur gert í því að draga þau augnablik fram á samfélagsmiðlum.

Þannig er allra fyrsta TikTok myndband Sölva Tryggva klippa úr viðtali hans við Kára Stefánsson hvar lykilinntakið er augnablik þar sem Sölvi beinir samtalinu að því að Kári hafi oft sagt að honum finnist Sölvi yndislegur maður. 

 

Þá er vinsælasta myndskeiðið, með rúm 27 þúsund áhorf, af Sölva að ræða um fyrrverandi kærustuna sína, við leikkonuna Maríu Birtu Bjarnadóttur.

Þau höfðu rætt um sálufélaga, sem leiddi Sölva út í að tala um þessa fyrrverandi kærustu, af því að umrædd fyrrverandi kærasta er að hans sögn einskonar sálufélagi hans og það vill svo til að hún, fyrrverandi kærastan, kynnti Maríu fyrir fríköfun. Sölvi kemst við á meðan hann talar og tárast smá. Myndavélin er á honum allan tímann í þessari tilteknu klippu nema þegar María segir: „Ég veit hvernig þér líður”. 

 

Framsetning Sölva á samfélagsmiðlum bendir þannig til að mögulega sé þessi viðtalsstíll beinlínis hluti af vörumerki hans. Kannski þarf því ekki að koma á óvart að Sölvi hafi að lokum tekið viðtal við sjálfan sig. En hvað segir það um fjölmiðlalandslag samtímans og hver er staða hlaðvarpsstjórnenda útfrá siðareglum blaðamanna?

Anna Marsibil Clausen velti fyrir sér persónulegri fjölmiðlun í Lestinni á miðvikudag. Innslagið í heild má heyra í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Innlent

Sölvi Tryggvason kærður fyrir líkamsárás