Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Kringlótt er fjöreggið, kringlótt er íslensk tunga“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Kringlótt er fjöreggið, kringlótt er íslensk tunga“

06.05.2021 - 10:21

Höfundar

Bergsveinn Birgisson flytur magnað kvæði sem hann orti og flutti þegar lagður var hornsteinn að Húsi íslenskunnar á sjálfan handritadaginn.

Síðasta vetrardag, 21. apríl, var lagður hornsteinn að Húsi íslenskunnar en þann dag voru 50 ár liðin frá heimkomu fyrstu handritanna frá Danmörku. Í hornsteininn voru lögð skjöl með upplýsingum um framkvæmd byggingarinnar, stafrænar útgáfur af Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók og frumsamið ljóð Bergsveins Birgissonar skálds sem hann orti í tilefni dagsins.

Þar er vísað í forna hefð sem er fyrir því að skáld séu kölluð til þegar hús eru vígð. Besta dæmið um þetta er í upphafi Flateyjarbókar, sem kom einmitt til landsins með danska herskipinu Vædderen fyrir 50 árum, þar sem sagt er frá því þegar vígja átti Niðarásdómkirkju árið 1153. Þá var Íslendingurinn Einar Skúlason kallaður til og flutti kvæðið Geisla að viðstöddu miklu fyrirmenni.

Bergsveinn flutti kvæðið, Við hornstein að Húsi íslenskunnar, í Kiljunni á RÚV.

Við hornstein að Húsi íslenskunnar

Bjúgrend, hvelfd og kúpt er kringlan unga,
kringlótt er byggingin hvað sem hún skal heita.
Kringlótt er fjöreggið, kringlótt er íslensk tunga,
kringlan er heimsins með orðin sem ֦„yndið veita“.

Ég hugsa um funann þann forna sem kveikti bálið,
um fræðamann, skáld og ömmu sem ljóðin kunni,
um frásagnargleði sem verndaði móðurmálið
– megi það tendra allt lífið í byggingunni.

Hljóðfæri Guðs og Hallgríms Péturssonar:
hásumarblómi og súgur í klettasprungu,
harðærisvetur og hörpunnar tónn sem vonar
hljóminn þinn skópu og læstu á hverja tungu.

Samhengi þitt er sjaldgæft á meðal þjóða:
að söngur þess manns sem óð hér að landi fyrstur
er samur að lagi og listarapparans góða,
laufið er nýtt en forn er þess greinarkvistur.

Að yrkja sitt mál er mannúðin sjálf í verki.
Að meitla sín orð er gjöf til allra manna,
líkt og af trénu flettir þú feysknum berki
og finnir þar efnivið lífsins, hinn hreina og sanna.

Lágreist voru húsin og lengstum moldarkofar
en ljóðið og sagan var höll þín með drekkhlöðnum borðum.
Og enn verður hús þitt sá andi sem leitar ofar
og yrðir það starf sitt með bóndans og sjómannsins orðum.

Herskip eitt kom hér, hlaðið með eldgömlu skinni;
hálf öld er síðan þjóðin varð sjálfstæð í anda.
Mál þeirra bóka var málið í hjartanu inni;
mættust þar gullöld og frelsi í sál vorra landa.

Þetta er fjöreggið hússins sem hérna stendur,
heilagar landvættir verndi það alla daga.
Til hamingju Ísland og heill þér Íslendingur,
heilar um aldir systurnar Edda og Saga!

Bergsveinn Birgisson

Tengdar fréttir

„Ég segi að þetta sé sál Íslands“

Innlent

Handritin heim – aftur?

Sjónvarp

Þegar Flateyjarbók kom heim