Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Höfum verið svolítið eins og strúturinn með þetta“

06.05.2021 - 10:57
Mynd með færslu
Mynd úr Heiðmörk 5. maí. Mynd: Aðsend mynd
Hulda Guðmundsdóttir, á Fitjum í Skorradal, telur að auka þurfi varnir við miklum gróðureldum, ekki síst í stærstu skógum landsins, og skilgreina þá á sama hátt og aðra náttúruvá. Gera þurfi átak í að skipuleggja vatnsöflun á skógarsvæðum og skipta skógum í brunahólf.

Gróðureldarnir í Heiðmörk í fyrradag lögðu undir sig meira en tvo ferkílómetra lands. Víða um land eru stærri og þéttari skógar en í Heiðmörk, svo sem á Hallormsstað á Austurlandi og í Skorradal á Vesturlandi. Hulda Guðmundsdóttir hefur ásamt Trausta Jónssyni veðurfræðingi reynt að vekja stjórnvöld til vitundar um hættuna sem fylgir miklum gróðureldum. „Við teljum í rauninni að það þurfi að skilgreina gróðurelda sem náttúruvá og þá þarf að móta einhvers konar tillögur um samfélagsskuldbindingu, hvernig ætlum við að taka á þessari vá sem greinilega er komin, hvort sem það eru loftslagsbreytingar eða mismunandi árferði, allavega þá er veðurfarið og gróðurhulan orðin þannig að þessi vá er fyrir hendi aftur og aftur. Það verður að taka á hættunni af þessari náttúruvá í öllu skipulagi, hvort sem það er frístundabyggð eða önnur landnotkun. Hvar er slökkvivatn, því að sums staðar er það mjög langt undan og mjög erfitt að nálgast það fyrir slökkviliðið. Og þau þurfa að hafa heilmikinn búnað á að skipa og eru náttúrulega vanbúin út um allt land til þess að takast á við þetta, bæði skortir þá þjálfun við þessar aðstæður, við höfum svolítið verið eins og strúturinn með þetta, vonandi bara gerist þetta ekki,“ segir Hulda. 

Þau Hulda og Trausti hafa sent yfirvöldum erindi síðustu ár þar sem varað er við vaxandi hættu af gróðureldum. Áhættan sem þeim fylgi sé vaxandi en tæki til að takast á við hana séu fyrir hendi. Það þurfi að fara að beita þeim og til þess þurfi samfélagslegt átak allra.