Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hátt í 13.000 fengu sprautuna í Höllinni í dag

Mynd: RÚV / Skjáskot
Hátt í þrettán þúsund fengu bólusetningu í Laugardalshöll í dag og þetta er mesti fjöldi sem hefur verið sprautaður á einum degi. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni höfuðborgarsvæðisins segir að vel hafi gengið að bólusetja þennan fjölda.

Bóluefni Astra Zeneca var  gefið í dag og þeir sem það fengu voru fæddir á árunum 1966-1975. Karlar voru í meiri hluta þar sem konum undir 55 ára er ekki gefið þetta bóluefni. Byrjað var að bólusetja klukkan níu í morgun og verið að þangað til rétt fyrir klukkan sex, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu  höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel og allt gengið upp. Það voru mjög margir boðaðir og við blönduðum allt í allt 12.800 skammta, tæp 13.000, sem er okkar langstærsti dagur til þessa,“ segir Ragnheiður Ósk.

Þegar leið á daginn voru yngri hópar boðaðir í bólusetningu til að nýta sem mest af bóluefninu, þar sem ekki mættu allir sem boðaðir höfðu verið. „Við vorum að bæta í ártölin og karlmenn þannig að við enduðum núna í að bjóða '75 árganginum. Síðan kláruðum við alla listana með karlmönnum með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Ragnheiður Ósk.

Hversu margir komu að þessu stóra verkefni?  „Mjög margir. Við vorum í allan dag, 45 hjúkrunarfræðingar sem voru bara að blanda hjá okkur á Suðurlandsbrautinni. Síðan vorum við hérna í Höllinni örugglega um 70 manns í ýmsum störfum, hjúkrunarfræðingar, lögreglan sjúkraflutningamenn og svo var fólk að skanna hjá okkur. Þannig að margar hendur vinna létt verk.“