Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gæti haft áhrif á greiðslur til fjölda fólks

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson
Svo kann að vera að Tryggingastofnun hafi skert greiðslur til fjölda fólks með því að rangtúlka greiðslur sem það fékk úr erlendum almannatryggingasjóðum. Umboðsmaður Alþingis hefur gert úrskurðarnefnd velferðarmála að taka aftur til meðferðar mál konu sem fékk skertar greiðslur hér vegna greiðslu úr þýskum sjóði. Lögmaður konunnar segir að málið sé áfellisdómur yfir Tryggingastofnun.

Íslensk kona sem metin er með 75 prósent örorku leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar úrskurðarnefndar velferðarmála um að skerða örorkubætur hennar. Konan er búsett í Þýskalandi og þáði greiðslur úr þarlendum sjóði sem hún taldi að svaraði til almannatrygginga. Lögum samkvæmt eiga slíkar greiðslur ekki að leiða til skerðingar hérlendis.

Það var var hins vegar mat Tryggingastofnunar að fara bæri með greiðslur konunnar sem greiðslur úr lífeyrissjóði og ákvað stofnunin þess vegna að skerða greiðslur hennar hérlendis. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti síðar þá ákvörðun.

Áfellisdómur yfir Tryggingstofnun og nefndinni

Umboðsmaður telur hins vegar í nýju áliti að úrskurðarnefndin hafi ekki leyst með réttum hætti úr máli konunnar. Lesa má út úr álitinu að þýski sjóðurinn sé vissulega ígildi almannatrygginga og fer umboðsmaður þess á leit við úrskurðarnefndina að taka mál konunnar fyrir aftur með hliðsjón af álitinu.

„Þetta álit er algjör áfellisdómur yfir vinnubrögðum Tryggingastofnunar og um leið mikill áfellisdómur yfir úrskurðarnefnd velferðarmála sem því miður virðist lítið annað gera en að blessa vinnubrögð Tryggingastofnunar,“ segir Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður konunnar.

Daníel segir málið fordæmisgefandi því Tryggingastofnun hafi úrskurðað á sama hátt í fjölda annarra mála. Málið varði því hundruð einstaklinga sem búsettir eru víðs vegar í Evrópu. „Með þessu áliti umboðsmanns er í raun og veru verið að segja það í málum mörg hundruð borgara hafi verið teknar rangar ákvarðanir, íþyngjandi ákvarðanir þar sem Tryggingastofnun hefur ákveðið að túlka lögin algjörlega á haus og í andstöðu við tilgang þeirra og með þeim hætti sem kemur verst niður á fólki.“

Magnús Geir Eyjólfsson