Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fréttir: 14 þúsund bólusett og skólastarf úr skorðum

06.05.2021 - 12:10
Fjórtán þúsund voru boðuð í bólusetningu við kórónuveirunni í Laugardalshöll í dag og hafa aldrei verið fleiri. Meðal þeirra voru forseti Íslands og heilbrigðisráðherra - sem sagði fyrirkomulagið minna helst á söngleik.

 

Skólastarf er víða úr skorðum vegna veikinda kennara í kjölfar bólusetningar í gær. Á sumum leikskólum er aðeins lítið brot starfsfólks mætt til starfa í dag. 

Íbúi í Skorradal hefur áhyggjur af gróðureldum og telur að skilgreina þurfi þá á sama hátt og aðra náttúruvá. Gera þurfi átak í að skipuleggja vatnsöflun á skógarsvæðum og forvarnir sömuleiðis. 

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er áfellisdómur yfir Tryggingastofnun segir lögmaður konu sem fékk skertar greiðslur vegna greiðslna sem hún fékk frá þýskum sjóði. Málið gæti haft áhrif á fjölda fólks sem fékk skertar greiðslur vegna sömu túlkunar Tryggingastofnunar.  

Kosningar eru víða á Bretlandi í dag, Skotar kjósa nýtt þing og Skoski þjóðarflokkurinn segir að fái flokkurinn meirihluta hyggist hann efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Bretar og Frakkar eiga í harðvítugri deilu um fiskveiðar og hafa sent herskip að eynni Jersey í Ermasundi. Tugir franskra skipa híma úti við stærstu bryggjuna á Jersey og krefjast veiðileyfis. 
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV