Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eldurinn fór yfir 61 hektara svæði í Heiðmörk

06.05.2021 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ívar Gunnarsson
Samkvæmt nýjum mælingum sem Skógræktarfélags Reykjavíkur fór eldurinn í Heiðmörk í fyrradag yfir um 61 hektara lands, eða 0,61 ferkílómetra. Heiðmörk öll er um 3.200 hektarar.

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna hættu á gróðureldum á stóru svæði á Suður- og Vesturlandi. Á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur er greint frá því í dag að Heiðmörk sé opin almenningi þrátt fyrir gróðureldinn, en reykingar og hvers kyns meðferð elds og eldfæra sé bönnuð. Tölur um stærð svæðisins sem varð eldinum að bráð hafa verið nokkuð á reiki, allt frá örfáum hekturum upp í 200 hektara. 

„Samkvæmt nýjustu mælingum fór eldurinn yfir um 61 hektara lands við Hnífhól, milli Hjalladals og Löngubrekkna. Alls er Heiðmörk um 3.200 hektarar að stærð. Hluti svæðisins sem brann var skógi vaxinn og urðu sum trén illa úti. Talsverð aska og ryk er á svæðinu. Ef vindur er, getur rokið úr svæðinu og kann það að valda fólki óþægindum ef það er á ferð í nágrenninu – til dæmis við Þjóðhátíðarlund,“ segir á vef félagsins.

Þá er vert að vísa fólki á fróðleik um gróðurelda þar sem hægt er að fræðast um gróðurelda, hvernig megi forða þeim og bregðast við þeim.

Hektari er ef til vill ekki mælieining sem fólk tengir mikið við, en hún er 100 sinnum 100 metrar. Í einum ferkílómetra eru þar af leiðandi 100 hektarar.