Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Brexit, byssubátar og fiskur

06.05.2021 - 16:53
Mynd: Pikist.vom / Pikist.com
Þó samkomulag hafi tekist um áramótin um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eru mörg mál enn óafgreidd, til dæmis um fiskveiðar. Franskir sjómenn á um áttatíu fiskibátum sigldu að Ermasundseyjunni Jersey í dag, argir vegna veiðileyfa. Þeir sigldu svo heim, hefðu vakið athygli á vandanum þó engin sé lausnin. Og eins og alltaf þegar fiskveiðideilur ber á góma muna Bretar þorskastríðin.

Brexit-vandinn í hnotskurn: afli án markaðar er lítils virði

,,Viljið þið halda í miðin ykkar? Allt í lagi, þá haldið líka fiskinum!“ Þessi skilaboð gat að líta við höfnina í franska fiskibænum Boulogne-sur-Mer í apríl. Sneið til Breta: ef franskir fiskimenn mættu ekki veiða áfram á breskum miðum, gætu Bretar haldið eiginn afla.

Hvínandi ónægja í breskum sjávarútvegi eftir Brexit

Í raun kjarni breska fiskveiðivandans eftir Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Breta eru háðir Evrópumarkaði, mest allt ferskt sjávarfang þeirra selt þangað. Andstætt loforðunum um batnandi Brexit-hag sjávarútvegsins hefur Brexit þegar skaðað breskan sjávarútveg illa og valdið þar hvínandi óánægju.

Brexit: rótin að fiskveiðideilu Frakka og Breta

Brexit er líka rótin að yfirstandandi fiskveiðideilum við Frakka. Þó fréttirnar af þessum óróa á Ermasundi hafi komið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þá hefur óánægjan mallað lengi, samanber skilaboðin í Boulogne-sur-Mer.

Hótun Girardin: við skrúfum fyrir rafmagnið á Jersey

Það sem gerði deilurnar að fréttaefni var yfirlýsing Annick Girardin sjávarútvegsráðherra Frakka í franska þinginu á þriðjudaginn, þegar hún var spurð út í deilurnar. Frakkar tækju fast á móti, sagði ráðherrann. Franska ríkisstjórnin þegar kvartað til framkvæmdastjórnar ESB. Og já, Frakkar og ESB gætu gripið til sinna ráða, eins og útgöngusamningurinn gerði ráð fyrir.

Ráðherrann minnti þarna á að raforkan á Jersey kæmi um franskan sækapal. Þó ráðherranum þætti það miður hefðu Frakkar þann möguleika að skrúfa fyrir.

Jersey, eyja með sérstöðu

Jersey er svo skammt undan strönd Normandí að rafmagnið kemur frá Frakklandi. Eyjan ekki hluti af Bretlandi en hefur frá fornu fari sjálfsforræði undir bresku krúnunni. Í kringum Jersey eru fengsæl fiskimið, háð samningum Breta við ESB. Og nú hlutverk yfirvalda á eyjunni að gefa út veiðileyfi fyrir heimamiðin til franskra fiskimanna.

Veiðileyfi framlengd um áramótin

Af því útgöngusamningur Breta og ESB var ekki gerður fyrr en rétt fyrir útgönguna um áramótin var veiðileyfum einfaldlega framlengt, í þrjá mánuði, með möguleika á framlenginu út júní. Franskir fiskimenn hafa verið óhressir með hvað yfirvöld eyjarinnar hafa verið lengi að ganga frá leyfunum.

Veiðileyfin loksins komin en Frakkar telja sig hlunnfarna

Þegar Jersey-veiðileyfin voru svo gefin út á föstudaginn var, komu þau í hlut færri báta en áður. Í viðbót segja frönsku sjómennirnir að Bretar séu upp á sitt eindæmi að setja nýjar veiðireglur, sem þeir hefðu með réttu átt að bera undir ESB. ­– Framkvæmdastjórn ESB tók undir þau sjónarmið í dag.

Boris Johnson vissi ekki af deilunum fyrr en allt fór í háaloft

Boris Johnson forsætisráðherra vissi ekki af deilunum fyrr en allt fór í háaloft í vikunni. Í gærkvöldi hafði fréttst að franskir sjómenn hyggðu á mótmæli. Forsætisráðherra sendi þá tvo byssubáta að eyjunni sem voru því þar fyrir þegar um áttatíu franskir bátar sigldu þangað í morgunsárið. Tveir franskir byssubátar voru skammt undan.

Eins og einn frönsku sjómannanna sagði í viðtali í dag við breska ríkisútvarpið þá vildu þeir sýna yfirvöldum að það væri ekki bara hægt að reka þá af miðum sem þeir hefðu veitt á, kannski um þúsundir ára.

Veiðileyfin mismunandi eftir bátsstærð

Veiðileyfin eru mismunandi eftir stærð bátanna. Bátseigendur þurfa að sýna fram á veiðar á miðunum undanfarin ár, hafa GPS-búnað, halda sig fjarri hryggningarstöðvum um hryggningartímann, ekki nota ekki neins konar botnveiðarfæri og fjöldi veiðidaga takmarkaður.

Yfirvöld á Jersey: veiðileyfin hliðstæð því sem breskir sjómenn búa við

Yfirvöld á Jersey segja reglurnar hliðstæðar breskum reglum. Ef bátseigendur geti ekki sýnt fram á fyrri veiðar bendi það kannski til þess sem menn hafi lengi grunað: að aflaskráning í Normandí hafi kannski ekki verið upp á marga fiska, í orðsins fyllstu merkingu. Í útgöngusamningnum væru ákvæði um hvernig ætti að leysa deilur og til þeirra gætu Frakkar og ESB gripið.

Frönsku sjómennirnir farnir heim, náðu tilgangi sínum

Í dag hefur málið verið rætt í breska og franska stjórnkerfinu, líka í Brussel. Yfirvöld á Jersey ræddu málið við frönsku sjómennina yfir borðstokkinn. Svo sigldu Frakkarnir heim. Þeir hefðu vakið athygli á málinu, tilganginum náð.

Þorskastríðin rifjuð upp – en stóðu lengur en í dag

Og eins og alltaf þegar fiskveiðideilur ber á góma hér í Bretlandi er stutt í upprifjun á þorskastríðunum. Og það hafa einmitt ýmsir breskir miðlar gert. Þó breskir og franskir byssubátar hafa vomað á Ermasundi í dag er nokkuð ljóst að þessi deila er, enn sem komið er, ekkert í líkingu við átökin við Íslendinga á sjöunda og áttunda áratugnum.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir