Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áslaug Arna vill leiða sjálfstæðismenn í borginni

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að gefa kost á sér í efsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins í sameiginlegu prófkjöri Reykjavíkurkjördæmanna sem verður fyrstu helgina í júní.

Áslaug Arna hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2016. Hún var í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum 2016 og 2017. Þá var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í oddvitasætinu. Hann tilkynnti í síðustu viku að hann myndi einnig sækjast eftir efsta sætinu í prófkjörinu. 

Áslaug Arna tók við dómsmálaráðuneytinu haustið 2019. „Í  störfum mínum síðastliðin ár hef ég lagt mig fram um að nýta þau tækifæri sem ég hef sóst eftir og fengið til að vinna að því að hafa góð áhrif á samfélag okkar og tryggja réttindi einstaklinga. Innan Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi og sem dómsmálaráðherra. Stjórnmál eiga að snúast um það að gera samfélagið betra og réttlátara þannig að sem flestir geti nýtt þau tækifæri sem til staðar eru. Við eigum að stefna að því að einfalda líf fólks og að kerfið lagi sig að fólki en fólk þurfi ekki að laga sig að kerfinu,“ segir í tilkynningu frá Áslaugu Örnu. 

Hvort Reykjavíkurkjördæmanna hefur 11 sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Kjördæmin urðu til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000 sem fyrst var kosið eftir í Alþingiskosningum 2003. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV