VICE sviptir hulunni af sérkennilegu „költi“ Íslendings

VICE sviptir hulunni af sérkennilegu „költi“ Íslendings

05.05.2021 - 13:15

Höfundar

Bandaríski fjölmiðillinn VICE birti í gær ítarlega umfjöllun um skóla Íslendingsins Guðna Guðnasson, Modern Mystery School. Blaðamaður VICE ræddi við fjöldann allan af fyrrverandi nemendum og dregur upp þá mynd að skólinn sé hálfgert „költ“ þar sem peningar og kynlíf eru aldrei langt undan.

DV birti fyrir fimm árum ítarlega grein um Guðna og skólann hans, The Modern Mystery School. Þar kom meðal annars fram að í breskri doktorsritgerð væri því haldið fram að starfsemi skólans jaðraði við píramídasvindl.

Umfjöllun VICE er einnig býsna umfangsmikil. Þar er rætt við fyrrverandi nemendur skólans sem segja farir sínar ekki sléttar auk þess sem varpað er ljósi á lífshlaup Guðna, bæði hér á Íslandi og erlendis. Meðal þeirra sem segja frá kynnum sínum við Guðna er Haraldur Dean Nelson sem kynntist Guðna þegar hann reyndi að hasla sér völl hér á landi í bardagalistum á tíunda áratug síðustu aldar. „Hann var aldrei tekinn alvarlega og fólk sem var í þessu af alvöru hló bara að honum,“ hefur VICE eftir Haraldi.

Guðni er núna búsettur í Japan og svaraði engum fyrirspurnum VICE um viðtal. Hann er býsna duglegur að setja færslur á Facebook.

VICE segir að þúsundir hafi lært við skóla Guðna. Skólanum er lýst sem „Harvard frumspekinnar“ og bjóði upp á ferðalag sem breyti lífi nemendanna og jafnvel heiminum. 

Í grein VICE kemur fram að nemendur reiði fram minnst 20 þúsund dollara, 2,5 milljónum íslenskra króna, til að ná frama innan skólans. Aðrir segjast hafa varið fleiri hundruð þúsund dollurum til að komast „á topp píramídans,“ eins og skólinn lýsir því sjálfur.

Skólinn er síðan sagður hvetja nemendur til að stofna eigin fyrirtæki sem byggi á grunngildum skólans. Modern Mystery-skólinn segist vera með 900 leiðbeinendur um allan heim og VICE segir að það séu hundruð félaga sem tengist skólanum og bjóði meðal annars upp á særingar illra anda og kristals-lækningar.

Blaðamaður VICE kveðst hafa rætt við fjöldann allan af nemendum, bæði núverandi og fyrrverandi. Sumir sögðu honum að námið hefði breytt lífi þeirra til hins betra. Aðrir lýstu áreitni og misnotkun, bæði fjárhagslegri og kynferðislegri. Flestir vildu ekki tjá sig undir nafni af ótta við málsókn eftir að hafa skrifað undir trúnaðarsamkomulag. Aðrir höfðu áhyggjur af bæði andlegum og líkamlegum afleiðingum. Blaðamaðurinn segir að við vinnslu greinarinnar hafi einn þeirra varað hann við dulrænum árásum. 

Einhverjir nemendur lýsa í samtali við VICE sérkennilegum vígsluathöfnum og segjast hafa verið hvattir til þess að stunda kynlíf til að opna fyrir ákveðnar rásir.

Forsvarsmenn skólans neita þessu í svari til VICE og vísa ásökunum nemendanna á bug. Einn nemandi lýsir samskiptum sínum við Guðna og segir hann hafa hvíslað að sér kynferðislegum athugasemdum. Skólinn neitar öllum ásökunum.

Umfjöllun VICE í heild er hægt að lesa hér.