Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sex milljarða króna hagnaður Arion banka

05.05.2021 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arion banki hagnaðist um rúma sex milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins en það er mun betri afkoma en á sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili í fyrra tapaði bankinn rúmum tveimur milljörðum.

Benedikt Gíslason bankastjóri segir í tilkynningu að öll helstu markmið bankans hafi náðst, þrátt fyrir erfiðar aðstæður vegna heimsfaraldurs. 

„Þó vissulega sé enn margt óljóst varðandi leiðina út úr heimsfaraldrinum þá er ástæða til aukinnar bjartsýni nú þegar bólusetningar ganga vel, bæði hér á landi og í mörgum þeirra landa sem skipta ferðaþjónustuna miklu. Það er ánægjulegt að sjá að margir okkar viðskiptavina eru farnir að búa sig undir betri tíma,“ er haft eftir Benedikt í tilkynningu.

Nokkur breyting hefur orðið í hluthafahópnum, stórir erlendir hluthafar sem tóku þátt í útboði fyrir tæpum þremur árum eru horfnir á braut en íslenskir fjárfestar hafa komið í þeirra stað. Hluthafar í bankanum eru rúmlega átta þúsund og um níutíu prósent hlutafjár í eigu Íslendinga, en lífeyrissjóðir eiga nær helmings hlut í bankanum.