Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Send heim yfir helgi með látið barn í maganum

05.05.2021 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni - Samsett mynd
Foreldrar sem komust að fósturmissi í skoðun hjá mæðravernd Landspítalans gagnrýna það hvernig heilbrigðiskerfið tók á málinu. Þau hafi ekki fengið stuðning í framhaldinu. Þau komust að því á föstudegi að dóttir þeirra, Kolfinna Ögn, væri látin en var gert að koma aftur á mánudegi í gangsetningu, þvert á leiðbeiningar spítalans. 

Sigríður Jónsdóttir opnar sig um málið í færslu á Facebook þar sem hún fer yfir atburðarásina. Hún og maður hennar, Magnús Kjartan Eyjólfsson, gáfu fréttastofu leyfi til þess að birta frásögnina, en vildu taka það skýrt fram að þau vilji ekki gagnrýna einstaka persónur innan heilbrigðiskerfisins, heldur sé það kerfið í heild sem hafði brugðist.

Yfirskrift færslunnar er: Hvernig getur heilbrigðiskerfið farið í helgarfrí?

Fann á sér að eitthvað var að

Sigríður og Magnús eru búsett á Laugarvatni. Sigríður fór í tíma í mæðravernd á Landspítalanum föstudaginn 23. apríl, og fann strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera þrátt fyrir að hafa séð heilbrigða stúlku í sónar aðeins tveimur dögum áður. Ljósmóðirin sem tók á móti Sigríði fann einnig að hún var ekki eins og hún átti að sér að vera.

„Í framhaldinu er gerð venjuleg mæðraskoðun, tekinn blóðþrýstingur, þyngd og rætt saman. En þegar hún ætlaði að hlusta á hjartsláttinn fann hún hann ekki. Við heyrðum í vægum hjartslátt frá fylgjunni, og mér en hjartslátturinn hjá barninu fannst ekki. Ég vissi strax að eitthvað væri að, enda mitt fimmta barn og margar mæðraskoðanir að baki,“ skrifar Sigríður.

Í framhaldinu var kallað á tvo fæðingarlækna til þess að gera sónarskoðun. 

„Eftir innan við mínútu segir hún [annar fæðingarlæknirinn]: „Já, ég get staðfest það, það er engin hjartsláttur, mér þykir það leiðinlegt.“ Það stoppaði allt í kringum mig, tárin byrjuðu að leka og ég næ að hvísla út úr mér „ertu viss?“ Þá snýr hún skjánum, stækkar upp sónarmyndina af barninu mínu og sýnir mér líflaust hjartað í henni. „Já, ég er viss.““

Ekkert net til þess að grípa syrgjandi foreldra

Í framhaldinu hafi átt að taka blóðprufu, þvagsýni og veirupróf. Sigríður er spurð hvort hún vilji hringja í einhvern, og hringir þá í Magnús.

„Ég bara öskurgræt í símann og hann spyr ítrekað hvað sé að, margbiður mig um að tala við sig en ég gat það ekki. Hann hafði ekki séð skilaboðin frá mér. Eftir góða mínútu næ ég að öskra upp „HÚN ER DÁIN!““

Sigríður gagnrýnir að ekkert hafi tekið við til þess að grípa foreldrana í sorginni. Hún hefði viljað sjá fagaðila taka símann, segja Magnúsi frá aðstæðum og hvað þurfi að gera. Í staðinn sé hann í geðshræringu og uppnámi fyrir austan fjall og vilji komast sem fyrst af stað.

Á meðan Sigríður gaf þau sýni sem þurfti var hún svo spurð hvort hún hefði íhugað krufningu, aðeins mínútum eftir að staðfest var að dóttir hennar væri látin. Sigríður spyr hvernig það geti talist eðlilegt verklag.

Gert að mæta aftur á mánudagsmorgun

Næst var farið yfir ferlið sem tæki við, en Sigríði var gert að mæta aftur á mánudagsmorgninum til þess að fara í gangsetningu. Þetta var á föstudegi og því ekki mögulegt að gera það strax.

Í upplýsingum sem mæður fá vegna fósturmissis segir hins vegar að mælt sé með að það sé gert innan 24 klukkustunda „þar sem ekki er talið æskilegt að bíða með framköllun fæðingar lengur en í þann tíma,“ segir í leiðbeiningunum.

Eftir blóðprufu var Sigríði svo leyft að fara, en Magnús var þá ekki kominn.

„Þegar ég labba út er klukkan 15:45. Það voru því liðnar heilar 29 mínútur frá því mér var sagt að það heyrðist enginn hjartsláttur og þangað til ég mátti fara. Bakvið mig heyri ég konur óska hvor annarri góðrar helgar. Á meðan ég var ein, að bíða eftir manninum mínum sem var út á landi. Ég sest út í bíl og öskra og græt. Með dóttur okkar, litla barnið sem okkur hlakkaði svo til að elska meira og fastar, dána í maganum. Af hverju? Jú, af því að heilbrigðiskerfið fór í helgarfrí,“ skrifar Sigríður.

„Hvernig er hægt að leggja það á fólk að vera heima með dáið barn í maganum yfir helgi?“

Hún lýsir því hvernig það var fyrir Magnús að koma keyrandi inn á bílastæði Landspítalans og mæta konunni sinni einni úti í bíl, niðurbrotinni af sorg.

„Af hverju var engin að passa upp á hana spurði hann sig aftur og aftur. Af hverju var henni hleypt einni út? Það var ekki kallaður til prestur, félagsráðgjafi, áfallateymi eða veitt nein áfallahjálp. [...] Hvernig er hægt að réttlæta þá meðferð að senda okkur heim til þess eins að bíða eftir því að það komi mánudagur til þess að fæða dóttur okkar?“ skrifar Sigríður og spyr:

„Af hverju fék Maggi ekki áfallahjálp? Af hverju fengum við enga ráðgjöf eða verkfæri í hendurnar til þess að segja eldri börnunum okkar frá þessu? Af hverju brást kerfið okkur svona harkalega? [...] Hvernig er hægt að leggja það á fólk að vera heima með dáið barn í maganum yfir helgi?“ skrifar Sigríður.

Nánar má lesa frásögn hennar HÉR.

Sigríður og Magnús ítreka að með frásögn sinni vilji þau benda á brotalamir í kerfinu en ekki ráðast gegn einstaka starfsfólki. Fréttastofa leitaði viðbragða frá Landspítalanum, en fékk þau svör að ekki væri hægt að tjá sig um einstök mál.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV