Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir breytingar veikja stöðu skattrannsókna

Mynd: RÚV / Skjáskot
Ákvörðun um að færa embætti skattrannsóknarstjóra undir ríkisskattstjóra veikir stöðu skattrannsókna, segir Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri. Hann segir að hlutverk skattrannsóknarstjóra sé nú óljóst. 

Frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um sameininguna varð að lögum í apríl. Þar var meðal annars höfð hliðsjón af dómum mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu, þar sem það var dæmt fyrir að refsa í tvígang fyrir sama skattalagabrotið.

Við breytinguna varð skattrannsóknarstjóri eining innan embættis ríkisskattstjóra og allir starfsmenn færðust þangað yfir, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. 

Þá er tilgangurinn að stytta málsmeðferðartíma og ná fram hagræði í ríkisrekstri. Nú fer héraðssaksóknari með rannsókn sakamála vegna skattalagabrota og hann getur vísað máli aftur til skattayfirvalda ef hann tekur ekki rétt að halda rannsókninni áfram. Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri segir breytinguna ekki hafa verið nægilega vel ígrundaða.

„Að mínu mati er hún ekki til þess fallin að styrkja stöðu skattrannsókna. Það er að sjálfsögðu alltaf álitamál hvernig á að koma svona störfum fyrir og þessi leið að setja þetta undir embætti ríkisskattstjóra hefði verið ein leið. En til þess að gera það hefði þurft að tryggja ákveðna þætti í starfseminni eins og sjálfstæði skattrannsókna varðandi ákvarðanir um hvaða mál eru rannsökuð sem ekki er gert,“ segir Indriði.

Hann gagnrýnir að ákvörðun um hvort rannsaka eigi skattalagabrot sé að miklu leyti tekin úr höndum skattrannsóknarstjóra. „Og færðar til ríkislögreglustjóra sem eftir frumvarpinu og greinargerð þess á ekki að byggja upp með tilliti til þess að hafa faglega hæfni eða faglegan mannskap til að sinna slíkum verkefnum. Þannig að ég held að þetta sé ekki mjög heppilegt.“

Vonlítið að byggja upp þekkingu á mörgum stöðum

Að sögn Indriða er fagleg þekking á skattamálum af skornum skammti í landinu.

„Og ég held að það sé vonlítið að reyna að byggja upp þessa þekkingu á mörgum stöðum. Menn hefðu átt að einhenda sér í að byggja hana upp á einum stað; hjá skattrannsóknarstjóra og fela honum þau völd og það umboð sem þarf til að fylgja þeim málum eftir.“

Indriði segir að að sjálfsögðu þurfi að vera tengsl við saksóknaravaldið. „Það gæti verið með ýmsum hætti, eins og til dæmis í Svíþjóð þar sem skattrannsóknir fara fram hjá því embætti sem hefur til þess faglega þekkingu, en undir yfirstjórn saksóknara sem kemur utan að.“

Það hefði verið þörf á að styrkja þessa starfsemi

Er hlutverk skattrannsóknarstjóra óljóst eftir þessa breytingu? „Mér finnst það alls ekki nógu ljóst. Það hefði verið þörf á að styrkja þessa starfsemi og byggja hana upp meðal annars með því að tryggja faglega þekkingu á einum stað og að sá aðili sem er yfir þeirri þekkingu hafi vald til að framkvæma hana.“

Indriði segir að sér virðist sem lítil fagleg eða skattarannsóknarlega athugun liggi að baki þessari ákvörðun um sameiningu. „Þarna er fyrst og fremst verið að búa til lögfræðilegan ramma sem er svolítið óljóst hverju á að skila. Mörg af alvarlegustu skattrannsóknarmálunum snúast ekki um beint brot á tilteknum lagagreinum eða lögum, heldur uppsetningu á aðgerðum sem leiða til þess að menn losna undan skatti. Eins og með aflandsfélög og þess háttar, þar sem einstakar aðgerðir í sjálfu sér eru ekki lögbrot í þeim skilningi en heildarútkoman er engu að síður undanskot frá skatti.“

Heldurðu að skattsvikarar hugsi sér gott til glóðarinnar núna? „Ég veit ekki hvort þeir hafa ástæðu til að gleðjast en þeir hugsa sér alltaf gott til glóðarinnar þegar færi gefst.“