Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Með stærri gróðureldum sem við höfum fengið“

05.05.2021 - 15:33
Mynd: Þór Ægisson / RUV
Eldarnir í Heiðmörk í gær eru eitt af stærstu verkefnum sem tengjast kjarr- eða gróðureldum sem slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur fengist við. Slökkvistarf sóttist seint þar sem erfitt var að koma slökkvibúnaði á staðinn. Vernharð Guðnason, deildarstjóri hjá aðgerðasviði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins segir að aðstæður í gær hafi verið erfiðar, mikilvægt sé að vernda vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk og ræða hvort hægt sé að tryggja slökkviliði betra aðgengi að svæðinu.

„Það er mjög mikilvægt að vernda vatnsverndarsvæðið. Ekki bara það að hér brenni gróður heldur kom til dæmis til þess að við erum með tæki eða búnað inni á þessu svæði og mjög nálægt vatnsverndarsvæðinu og ef að þau bila eða fara að leka, það getur haft áhrif líka þannig að áhættan er ekki bara frá eldinum. Þannig að það er lang best að við þurfum ekkert að vera að athafna okkur hérna. Og enn og aftur, ekki vera með opinn eld við þessar aðstæður úti þessa dagana,“ segir Vernharð. 

Slökkvilið lauk störfum í Heiðmörk um klukkan fjögur í nótt en slökkvistarf tók um hálfan sólarhring. Alls urðu yfir tveir ferkílómetrar gróðurlendis sinueldinum í Heiðmörk að bráð. Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna eldanna en vatnsból höfuðborgarinnar eru í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, segir á vef Veitna. Gripið var til ýmissa aðgerða ef illa færi, vatnstankar voru settir á yfirfall og reynt að tryggja slökkviliði aðgang að vatni. Vernharð segir mikilvægt að huga að betra aðgengi að svæðinu fyrir slökkvilið. „Við þurfum að taka þá umræða og ræða meðal annars hvernig við ætlum að tryggja að slökkvilið geti athafnað sig á svæðinu ef það koma upp eldar. Við þurfum að tryggja aðgengi með betri stígagerð en auðvitað allt í sátt og samlyndi við umhverfið hérna,“ segir Vernharð.