Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hópsmitin á Suðurlandi öll rakin til Þorlákshafnar

05.05.2021 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hópsýking sem kom upp á Suðurlandi og varð til þess að smit komu upp á Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri, Flúðum, Selfossi og dreifbýlum má rekja til smits meðal starfsmanna útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Ramma í Þorlákshöfn.

Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmissóttvarnalæknir Suðurlands, greindi frá þessu í hádegisfréttum. Hún kvaðst þó bjartsýn á að búið væri að ná utan um smitin.

„Síðustu viku hafa nýgreindum smitum á hverjum degi farið verulega fækkandi og ekki verið neinn utan sóttkvíar, sem er mjög jákvætt. Við leyfum okkur að vera bjartsýn,“ sagði Elín Freyja, og bætti við að flest nýgreind smit síðustu daga hafi verið meðal starfsmanna Ramma, þar sem hópsmitið byrjaði.

Enginn greindist utan sóttkvíar á Flúðum

Rúmlega 200 manns fóru í skimun á Flúðum í gær og segir Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri að úr því hafi komið jákvæðar fréttir.

„Það reyndist þannig vera að það voru engin smit utan sóttkvíar. Einn greindist sem búinn var að vera í sóttkví síðan miðvikudaginn 28. apríl og var búinn að vera í sóttkví í viku. Það er bara búið að opna allt aftur með eðlilegum hætti og lífið er bara komið í eðlilegan gang aftur,“ sagði Jón.

Hann sagðist viss um að búið væri að ná utan um hópsýkinguna. Nú væru fimm manns í einangrun á Flúðum og 12 í sóttkví, en þar fækkaði verulega í gær eftir að niðurstöðurnar bárust úr skimuninni.