Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hafa karpað um málefni innflytjenda í átta klukkutíma

05.05.2021 - 00:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarfrumvarp sem snýr að því að útvíkka hlutverk Fjölmenningarseturs og auka fjárframlög til stofnunarinnar hefur verið til umræðu á Alþingi í átta klukkutíma, frá því klukkan þrjú í dag. Ræðurnar eru nú orðnar hundrað og Miðflokksmenn halda uppi því sem Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, kallaði fyrr í kvöld málþóf. Þeir hafa lýst yfir áhyggjum af því að lagabreytingin fjölgi innflytjendum á Íslandi.

Með frumvarpinu, sem er lagt fram af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, er Fjölmenningarsetri falið víðtækara hlutverk, til dæmis að sjá um samræmda móttöku flóttafólks. Stofnunin á, samkvæmt frumvarpinu, að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks, svo sem með stuðningi í erfiðum eða flóknum einstaklingsmálum, auk þess sem stofnuninni er falið að halda fræðslufundi. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í kvöld ljóst að hælisleitendakerfið á Íslandi væri misnotað. „Enda ekki hægt að gera ráð fyrir að glæpagengi sem taka aleiguna af fólki og setja það í lífshættu muni vilja fylgja í öllum tilvikum settum reglum,“ sagði hann og benti á að ef kerfið auðveldaði misnotkun bitnaði það mest á þeim sem þurfa á hjálp að halda. „Og þess vegna þurfum við við hönnun móttökukerfis að setja í forgang að það sé til þess fallið að aðstoða þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda,“ bætti hann við. Með frumvarpinu væri ríkisstjórnin að gera sig að jaðarhópi í þessum málaflokki: „Því í Danmörku er samstaða frá hægri til Sosíaldemókrata, og raun lengra til vinstri, um að breytinga sé þörf. Og þær breytingar ganga þvert á það sem lagt er til hérna,“ sagði hann. 

Gunnar Bragi Sveinsson sagðist telja rétt að athuga hversu stór hluti „af hælisleitendum eða slíkum einstaklingum hefur komist í kast við lögin eða komið upp hjá barnavernd eða skólum“. Og þá mætti spyrja hvort þessi hópur gæti aðlagast íslensku samfélagi.  

Frá því klukkan sjö í kvöld hefur Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, verið einn um að svara Miðflokksmönnum. Hann hefur til dæmis sagt að hann vilji frekar ræða um aðlögunarkerfið sjálft, heldur en um það hverjir fá að vera og hverjir eiga að fara. „Við erum of upptekin við að karpa um það hvort við viljum hafa fólki hér eða hinum megin,“ sagði hann.

Uppfært 00:10: Þingfundi lauk á miðnætti.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV